133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

dragnótaveiðar.

399. mál
[15:03]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðvesturkjördæmis hefur lagt fyrir mig þrjár fyrirspurnir um dragnótaveiðar. Fyrsta spurningin er:

Hvaða sjónarmið eru lögð til grundvallar banni og/eða takmörkunum á dragnótaveiðum?

Svarið er þetta: Í 5. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, segir að dragnótaveiðar séu heimilar á þeim svæðum þar sem fiskiskipum eru heimilar togveiðar samkvæmt greininni. Síðan segir meðal annars í 6. gr. sömu laga, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir 5. gr. er heimilt að leyfa veiðar með dragnót nær landi en um ræðir í 5. gr. samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu. Aðeins er heimilt að veita leyfi skipum styttri en 42 metrar, enda séu þau með aflvísi lægri en 2.500, en ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skilyrði fyrir veitingu leyfa samkvæmt þessari málsgrein. Getur ráðherra sett almennar og svæðisbundnar reglur í því skyni að stuðla að hagkvæmri nýtingu fiskstofna, að teknu tilliti til veiða með öðrum veiðarfærum sem stundaðar eru á viðkomandi svæðum. Getur ráðherra m.a. ákveðið að leyfin séu bundin við ákveðið svæði og að aðeins hljóti leyfi til veiða á tilteknu svæði tiltekinn fjöldi skipa, skip sem skráð eru á því svæði, skip af ákveðinni stærð eða gerð eða skip sem áður hafa stundað dragnótaveiðar. Þá getur ráðherra, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveðið að dragnótaveiðar á ákveðnu svæði miðist við nýtingu ákveðinnar fisktegundar.“

Í reglugerð nr. 788/2006 um dragnótaveiðar og í veiðileyfum einstakra skipa er kveðið nánar á um framkvæmd laganna. Þetta er svar við fyrstu spurningunni.

Önnur spurningin lýtur að áhrifum heimamanna, annars vegar útgerðarmanna og hins vegar sveitarstjórnarmanna, á ákvarðanir ráðuneytisins um takmarkanir á dragnótaveiðum.

Svar mitt er þetta: Það hefur ekki verið ágreiningslaust hvar og hvenær eigi að heimila dragnótaveiðar eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson vakti réttilega athygli á. Þetta er ekki ný deila. Hún hefur staðið lengi og ég spái því að hún muni standa lengi um hríð. Eins og áður sagði þá tekur ráðherra ákvörðun um skipan dragnótaveiða innan togveiðilína. Það er reynt að gera slíkt í samráði við útgerðarmenn, sjómenn, á viðkomandi svæði og oft hafa sveitarstjórnir líka haft milligöngu í málinu. Við sjáum það núna til dæmis að í þeirri umræðu sem hefur staðið um dragnótamálin þá hafa sveitarstjórnirnar verið mjög í forgrunni. Þær hafa lagt fram tillögur í þessum efnum þannig að við erum meðal annars að taka afstöðu til tillagna þessara sveitarstjórna.

Það má líka segja að ákvarðanir í þessum málum hvíli sjaldnast á beinum verndunarsjónarmiðum einum og sér heldur er reynt að finna á því lausn með tilliti til skiptingar veiðisvæða milli veiðarfæra og nýtingar þeirra fiskstofna sem einkum fást við dragnót. Þess vegna má til sanns vegar færa að það sé rétt sem hv. þingmaður sagði áðan að þetta getur líka verið byggðapólitísk ákvörðun. Við gerum það líka þannig að við skiptum hafsvæðinu niður þannig að menn hafa einungis heimild til að stunda veiðar með dragnót á tilteknum svæðum en ekki öðrum innan tiltekins fiskveiðiárs. Þetta hefur verið gert til þess meðal annars að reyna að koma til móts við óskir heimamanna sem hafa fundið að því að menn voru að flakka á milli með skip sín og stunda dragnótaveiðar vítt og breitt í kringum landið sem olli heilmiklum átökum eins og allir vita.

Það er hins vegar aðeins við dragnótaveiðar í Faxaflóa sem menn gerðu kröfu til þess að dragnótin sé aðeins notuð til veiða á tilteknum fisktegundum. Þá sérreglu má rekja til þess að þegar dragnótaveiðar voru heimilaðar á ný í Faxaflóa á sínum tíma þá var það gert með því skilyrði að bolfiskur færi ekki yfir tiltekin mörk og sú regla hefur haldist síðan. Við höfum hins vegar verið að taka upp þessar stærðartakmarkanir víðar. Þessar stærðartakmarkanir gilda til dæmis fyrir Vestfjörðum. Þær gilda fyrir Austfjörðum og þær gilda, að ég hygg, nokkuð víðar þannig að við höfum auðvitað verið að þróa þessa stýringu meira í þessa átt eins og hv. þingmaður vakti athygli á.

Þriðju spurningunni sem hv. þingmaður gerði grein fyrir vil ég svara með þessum hætti: Sjávarútvegsráðuneytinu barst áskorun frá mörgum íbúum við Skagafjörð um að banna dragnótaveiðar á Skagafirði. Þessi ákvörðun var studd af sveitarstjórnarmönnum í Skagafirði. Sjávarútvegsráðuneytið brást þannig við að banna dragnótaveiðar á Málmeyjarsundi og fyrir því færði ég ákveðin rök. Ég taldi að það væru fiskverndarfræðileg rök fyrir því og meðal annars gerði ég það eftir ábendingum heimamanna, ekki síst smábátasjómanna sem töldu að það mundi geta skipt allnokkru máli. Þessari ákvörðun vildi sveitarstjórnin ekki una þó að það kæmi fram í sjálfu sér ánægja með það að þetta skref yrði stigið og ítrekaði óskir sínar um bann við dragnótaveiðum á Skagafirði og nú innan línu sem dregin yrði úr Ásnefi vestan fjarðarins í norðurenda Þórðarhöfða að austanverðu. Þessar óskir höfum við haft til athugunar. Þessum óskum eins og öðrum óskum varðandi dragnótamálin var reyndar vísað til sérstakrar nefndar sem starfar á vegum sjávarútvegsráðuneytisins og skipuð er fulltrúum allra hagsmunaaðila. Ég hef lýst því yfir að ég vilji sjálfur taka afstöðu til þessa máls innan skamms og mun gera það þrátt fyrir að ég hafi komið því í þennan farveg og þrátt fyrir að Hafrannsóknastofnun hafi ekki mælt með því að þessar veiðar yrðu bannaðar. Tíðinda af þessu er vonandi að vænta innan ekki mjög langs tíma.