133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[18:01]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kjartani Ólafssyni fyrir ræðuna. Ef ég skil hann rétt var hann með tvær spurningar. Hann spurði í fyrsta lagi hvort ÁTVR geti ekki haldið uppi því þjónustustigi sem það er með núna ef frumvarpið næði fram að ganga.

Skemmst er frá því að segja að ef forsvarsmenn þeirra verslana hafa áhuga á að hafa hlutina með sambærilegum hætti og gert hefur verið fram til þessa, og þá fyrst og fremst úti á landi, — að vísu skilst mér að í einni verslun hér á höfuðborgarsvæðinu, í Kópavogi, sé eitthvað aðeins öðruvísi módel en á verslunum úti um landið — þá geta menn í sjálfu sér gert það með sterka áfengið áfram. Það er í sjálfu sér ekkert sem mælir gegn því. Það er nú kannski kosturinn við þá vöru, ef þannig má að orði komast, að geymsluþol hennar er mjög mikið. Viðkomandi verslanir geta því geymt vöruna í mörg ár án þess að hún skemmist nokkurn skapaðan hlut. Jafnvel má færa rök fyrir því að hún batni, í það minnsta léttu vínin. En þó að við séum að tala um sterku vínin líka þá skemmast þau í það minnsta ekki eins og þekkt er orðið og ákveðnar áfengistegundir sterkra drykkja batna með árunum.

Síðan kom hv. þingmaður inn á það hvort binda ætti það við 22%. Það er sjálfsagt og eðlilegt að menn skoði það í nefndinni. Nú vill svo vel til að flutningsmenn leggja til að þessu frumvarpi verði vísað til allsherjarnefndar og gott ef hv. þm. Kjartan Ólafsson er ekki í allsherjarnefnd. Ég efast því ekki um að þar muni menn fara vel yfir þennan þátt mála. Það er bara sjálfsagt og eðlilegt. Ég er ekki að mæla gegn því, alls ekki.