133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[18:12]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að umræðan hafi verið þörf. Árangurinn hefur hins vegar verið í ýmsar áttir. Það er ákaflega ánægjulegt að hv. 1. flutningsmaður málsins skuli ekki lengur halda því fram að áfengi sé eins og hver önnur vara — sem hefur einkennt málflutning hans og skoðanabræðra hans í þessum efnum — og gerir sér grein fyrir því að hér er um heilbrigðisvanda að ræða, að einhverju leyti að minnsta kosti.

Á hinn bóginn hefur hann svo skýrt málin fyrir okkur með því að taka undir það með hv. þm. Kjartani Ólafssyni að með frumvarpinu sé verið að leggja ÁTVR niður — að það sé eðlilegt framhald af frumvarpinu að það sé gert og að nefndin eigi sem sagt að gera það þó að hann hafi ekki treyst sér sjálfur til þess að flytja hreinlega frumvarp um það efni.

Í þriðja lagi tel ég að annað hafi gerst í þessari umræðu. Í þessu máli hafa verið einhver rök um brennivín yfir 22% og brennivín undir 22%, en þau eru ekki gild hér. Ég tel að ég hafi sýnt fram á það með rökum sem ekki hafa verið hrakin að ekki er um það að ræða að hægt sé að skipta hlutunum í bjór og létt vín annars vegar sem einhvers konar gott áfengi og hins vegar í vonda áfengið sem er sterka vínið. Fyrir utan vinsældakafla um að lækka verð á áfengi með skattalækkun — ekki í frumvarpinu heldur í athugasemdunum — þá sem sé vantar enn samhengið við aðra þætti í umræðu um áfengi, um áfengisvanda, um kjör og hagi æskulýðs og um slysahættu og dauðaógn sem staðfestist meðal annars af hinu algenga vandamáli að menn keyra hér allt of mikið ölvaðir (Forseti hringir.) og sýna ekki rétta hegðun undir stýri.