133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

stefna í loftslagsmálum.

[15:14]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þessi málflutningur auðvitað dæmir sig sjálfur. Það er leiðinlegt ef þetta var tilgangurinn með því að þjófstarta utandagskrárumræðu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur farið fram á til að ná fram (Gripið fram í: Kaffibandalaginu …) (Gripið fram í.) í kaffibrandaralaginu einhverju skoti á ríkisstjórnina á þessum grundvelli.

Ég endurtek eingöngu það að íslenska ríkisstjórnin og vonandi við öll, Alþingi allt, mun koma fram af fyllstu ábyrgð í þessu máli. Sendinefnd okkar á þeirri ráðstefnu sem þingmaðurinn gat um mun koma þangað upprétt. Við stöndum vel að vígi, við höfum gert okkar til að draga úr mengun í heiminum. Við viljum hjálpa öðrum til að þeir geti líka gert það og ég held að hvorki hv. fyrirspyrjandi né aðrir þingmenn þurfi að hafa einhverjar sérstakar áhyggjur af því að Íslandi standi ekki sína plikt í þessu máli.