133. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2007.

málefni Frjálslynda flokksins.

[12:08]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég heyrði ekki þetta útvarpserindi á Rás 2 sem talað er um en mér var bent á þetta síðdegis í gær og að þetta erindi væri þá þegar komið á heimasíðu hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur sem er einnig formaður innflytjendaráðs og fyrrverandi aðstoðarmaður félagsmálaráðherra. Ég verð að segja að mér brá verulega í brún þegar ég las það sem hún hafði sagt. Hún er að tala um að við í Frjálslynda flokknum flöggum m.a. stefnu mannfyrirlitningar og haturs og aukum og ölum á ótta fólks í landinu við fólkið sem kemur hingað í atvinnuleit. Ógeðfelldur boðskapur, segir hún, og annað þar fram eftir götunum.

Ég skora bara á hv. þingmann að færa rök fyrir því að þessar staðhæfingar hennar standist. Hún á að hafa mikla þekkingu á þessum málaflokki, hún á að vera vel inni í umræðunni. Henni hefur verið treyst fyrir miklum ábyrgðarstörfum, m.a. sem formanni innflytjendaráðs. Hún hefur komið að stefnumótun ríkisstjórnarinnar varðandi málefni innflytjenda. Ég held að hún hljóti að geta komið hingað í ræðustól og flutt málefnaleg rök fyrir því að það standist sem hún heldur fram, að Frjálslyndi flokkurinn ali hér á mannfyrirlitningu og hatri í þjóðfélaginu.

Mér finnst þetta særandi ummæli. Með þessum hætti reyna þingmenn Framsóknarflokksins nánast að lýsa okkur, þingmönnum Frjálslynda flokksins, sem villidýrum, að við aðhyllumst einhvers konar stjórnmálaskoðanir sem eru með því viðbjóðslegasta sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir í sögu sinni. Mér finnst þetta ómaklegt. Við höfum ekki gert neitt nema benda á staðreyndir, við höfum talað af skynsemi í þessu máli. Formaður Frjálslynda flokksins sagði ekkert í ræðu sinni sem ekki mátti segja. Hann benti á hluti sem við eigum að skoða og taka inn í umræðuna. Það er bara skylda okkar allra sem erum hér kosin sem fulltrúar þjóðarinnar að ræða þessi mál opinskátt og af hreinskilni. Læknar hafa bent á það, til að mynda er hér grein eftir Helga Hróðmarsson í SÍBS-blaðinu. Helgi Hróðmarsson segir, með leyfi forseta:

„Af um 30 þúsund innflytjendum hér á landi (Forseti hringir.) hefur um þriðjungur eða 10 þúsund manns berklabakteríuna í sér. Berklar eru vágestur sem við útrýmdum héðan frá Íslandi.“ — Er ekki sjálfsagt að við ræðum þessi mál. Hvað er að þessari umræðu?