133. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2007.

málefni Frjálslynda flokksins.

[12:11]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Nú vantar bara að fjórði þingmaðurinn í þingflokki Frjálslynda flokksins komi hér upp og þá eru allir í þingflokknum búnir að tala um þetta mál sem sýnir að það er kannski óvenjumikil viðkvæmni í gangi, eða hvað? Gæti það kannski tengst því eitthvað hver útkoma ykkar í skoðanakönnunum varð í Blaðinu í gær (Gripið fram í.) sem einmitt sýnir (Gripið fram í: … ógeðfellt í ræðu …) að þessi málflutningur … (Forseti hringir.)

(Forseti (RG): Gefa þingmanninum hljóð.)

… nær ekki eyrum meiri hluta þjóðarinnar sem finnst einmitt þetta hafa verið daður og jaðra við þá stefnu sem ég hef rakið hér? Það þarf ekki annað en að líta til þess að næstum helmingur þeirra fyrirspurna sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hefur lagt hér fram það sem af er þessum vetri hefur snúið að útlendingum og að því sem ég hef viljað kalla daður við þá ógeðfelldu stefnu sem ég nefni hér í ræðu minni. (Gripið fram í.) Ýjað að því og spurt út í sakaferil, út í heilsufar og þess háttar. Það er það sem ég sagði í ræðu minni og hef sagt hingað til. (Gripið fram í.) Ég þarf ekki annað en að taka upp orð fyrrverandi ritara flokksins sem sagði eftir þennan landsfund eða flokksþing ykkar sem haldið var um daginn. Sjálfur ritari flokksins sem hefur borið ábyrgð á stefnumörkun ykkar taldi sig vera að reyna að (GAK: Hún taldi …) rétta af kúrsinn í málflutningi þingmanna sinna. Hún sagði sjálf að hún teldi að þessi málflutningur og þessi nýja stefna sem flokkurinn væri búinn að taka upp gerði flokkinn holdsveikan, holdsveikan í mögulegu stjórnarsamstarfi við aðra flokka. Ég ýjaði að því í þessum pistli mínum og ég tók það upp í pistli mínum hvort hinir stjórnarandstöðuflokkarnir sæju sér fært að koma þessum aðilum til valda í samfélaginu þannig að þessi sjónarmið yrðu uppi í stefnu innflytjenda. (Gripið fram í.) Ég vona að svo sé ekki. Mér sýnist sem frjálslyndir séu á miklum hlaupum burtu frá þessari stefnu sinni með ræðum sínum í dag. Ég yrði fyrst til að fagna því ef við yrðum sammála og hættum þessu málflutningi. (Gripið fram í.)

(Forseti (RG): Ég bið þingmenn að virða tímamörk og aðra þingmenn í salnum að gefa ræðumanni hljóð.)