133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

nám langveikra ungmenna o.fl.

334. mál
[18:16]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn sem mikilvægt er að komi fram. Hún dregur líka fram það mikilsverða starf sem þingmenn inna af hendi með vinnustaðaheimsóknum. Slíkar heimsóknir draga oft fram mál sem eru brýn og nauðsynleg en fara ekki hátt en auðvelt getur verið að laga innan stjórnkerfisins þegar þörf krefur. Hv. fyrirspyrjandi spyr:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir skipulögðu framhaldsskólanámi inni á sjúkra- og/eða endurhæfingarstofnunum fyrir langveik ungmenni eða ungmenni sem þurfa af öðrum ástæðum, t.d. vegna slysa, að dvelja langdvölum á sjúkrahúsum eða í endurhæfingu?“

Langveikir nemendur sækja rétt sinn til þjónustu til 19. gr. laga um framhaldsskóla. Samkvæmt 1. málsgrein þeirrar greinar og líka aðalnámskrár skal veita fötluðum nemendum, samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu „fatlaðir“ sem kemur fram í 2. gr. laga um málefni fatlaðra frá 1992, kennslu og sérstakan stuðning í námi, þar með talið sérfræðilega aðstoð og nauðsynlegan aðbúnað eftir því sem þörf krefur. Í sömu lagagrein er mælt fyrir um að fatlaðir nemendur skuli stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er. Í 2. mgr. 19. gr. kemur fram að menntamálaráðherra geti heimilað stofnun sérstakra deilda við framhaldsskóla fyrir fatlaða nemendur.

Við síðustu endurskoðun á almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla frá árinu 2004 var staða langveikra nemenda sérstaklega styrkt. Framhaldsskólum ber að greina frá þjónustu við langveik ungmenni í skólanámskrá viðkomandi skóla, hvaða þjónustu þeir bjóða langveikum ungmennum. Fjarnám er einnig algengt á framhaldsskólastigi og hentar vel til að veita langveikum ungmennum þjónustu. Ekki eru áform um skipulagt framhaldsskólanám við sjúkra- og endurhæfingarstofnanir heldur er nám langveikra nemenda skipulagt í náinni samvinnu viðkomandi nemenda og skóla. Skólarnir eru mismunandi og fjölbreyttir og bjóða upp á mismunandi nám. Þannig viljum við líka hafa það.

Ráðuneytið lítur svo á að það sé skylda framhaldsskólanna að mennta langveika nemendur eins og aðra nemendur. Það er alveg skýrt af okkur hálfu. En nám á framhaldsskólastigi er mjög fjölbreytilegt og því verður að skipuleggja nám hvers nemanda með tilliti til þarfa hans og stöðu. Það er náttúrlega mjög mismunandi almennt í samfélaginu og oft og tíðum fjölbreyttara hjá langveikum nemum sem þurfa að dvelja langdvölum á sjúkrahúsum. Þess vegna er mikilvægt fyrir skólana að geta aðlagað námið, ekki hafa eina miðstýrða námskrá fyrir þá heldur aðlaga námið þannig að það verði einstaklingsmiðað og sniðið að þörfum langveikra barna sem eru misjafnlega í stakk búin fyrir námið.

Þá eiga nemendur sem falla undir skilgreiningu 19. gr. framhaldsskólalaganna rétt á námi við framhaldsskóla í allt að fjögur ár. Fyrir þessa nemendur eru sérstakar námsbrautir starfandi við 16 framhaldsskóla auk þess sem hluti þeirra stundar nám við aðrar námsbrautir skólanna. Á þessu skólaári, frú forseti, stunda tæplega 300 fatlaðir nemendur nám við framhaldsskóla víðs vegar um landið.

Ég vil, í framhaldi af því sem kom fram áðan út af annarri fyrirspurn, segja að það er mikilvægt að tryggja aðgang allra að skólakerfinu, hvort sem við erum að tala um háskólanám eða framhaldsskólanám, ég tala nú ekki um leikskóla eða grunnskóla. Að sjálfsögðu gildir hið sama um nemendur og ungmenni á sjúkrahúsum og aðra í samfélaginu. Við erum að vinna að því og við vonumst til að gera það sem við getum, sinna þörfum þeirra eftir bestu getu. En það er mikilvægt að fara yfir þessa hluti. Þess vegna vil ég sérstaklega þakka hv. fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn.