133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[17:21]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þurfti satt að segja ekki á því að halda að vera fræddur um það hvernig þetta lítur út í frumvarpinu, ég veit það. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra þó fyrir þá upplýsingu en ég saknaði svars við þeirri beinu spurningu sem ég lagði fyrir hana: Telur hún heppilegt að einstök leyfi í umhverfisflokki a og b, sem um er fjallað í bráðabirgðaákvæði III í þessu frumvarpi, komi fyrir Alþingi til samþykktar? Spurning sem hægt er að svara já eða nei. Ég spurði um þetta og ekki um annað.

Ég fagna því hins vegar að við í umhverfisnefnd skulum fá að afgreiða þetta mál og heiti vönduðum vinnubrögðum og mikilli athygli við þá afgreiðslu. En þetta vil ég fá að heyra frá umhverfisráðherra, já eða nei við því: Telur hún þetta heppilegt eða telur hún að þetta eigi að vera meira á valdi Orkustofnunar og hugsanlega ráðuneytis hennar, í einhvers konar samráði við ráðuneyti hennar?