133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[21:24]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Hv. þm. Jóhann Ársælsson leggur mér orð í munn. Það er fjarri því að ég telji að ekki eigi að setja stóriðju neinar hömlur en ég vísaði orðrétt í orðalag í skýrslu sem hv. þm. Jóhann Ársælsson stendur að. Ég er hins vegar á þeirri skoðun, og í góðu lagi að hún komi fram hér, að við eigum að fara okkur óskaplega varlega, bæði varðandi nýtingu auðlindarinnar og eins við uppbyggingu álvera. Mér segir svo hugur að öll þau áform sem uppi eru um stækkun og að reisa ný álver eigi ekki eftir að ganga jafn vel eftir.

Ef hugur almennings til uppbyggingar stóriðju er sá sem ég skynja í samfélaginu þá get ég ekki séð að þeir sveitarstjórnarmenn sem hafa verið áfram um þetta eigi eftir að fylgja áformum sínum eftir og ráðast í slíkar stórframkvæmdir. Ég sé ekki að þetta gangi eftir. Það er alveg ljóst að ég vil að þessu séu settar hömlur. Það eru hömlur í þeirri málsmeðferð sem leyfisveiting kalla á, m.a. með umsagnarrétti umhverfisráðuneytis sem eingöngu er byggð á náttúruverndar- og umhverfissjónarmiðum. Það hefur ekki verið farið í bága við það og það er virt. Við lítum þá til þeirra svæða sem ekki eru fullrannsökuð.

Ég er á því að við förum okkur óskaplega varlega og ég get tekið undir með fyrrverandi umhverfisráðherra. Orkan á bara eftir að hækka og það sem meira er, við þurfum einhvern tíma að taka ákvörðun um það hvert hagnaðurinn fer.