133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

aflagning dagabátakerfisins.

246. mál
[14:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Það eru greinilega mjög skiptar skoðanir um þetta mál þótt nokkur missiri séu liðin frá því að lögin voru samþykkt. Ég hygg að það verði áfram miklar deilur um það mál því að það skipti mjög miklu að við höguðum útgerð frá þessum litlu sjávarbyggðum á þann hátt sem við gerðum.

Það er alveg rétt sem hæstv. sjávarútvegsráðherra benti á áðan. Það er vel hægt að stjórna flota af þessari gerð með sóknartakmörkunum. Það er vel hægt og á að gera það. Það er sannfæring mín að stýra eigi þessum hluta fiskiskipaflotans með þeim hætti.

Þessi hluti flotans mun aldrei ofveiða nokkurn skapaðan hlut. Það eru svo margir aðrir þættir sem hafa áhrif á reksturinn, t.d. fiskgengd, veðurfar og annað, að ég hef í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af því að þessi floti muni ofveiða nokkurn skapaðan hlut, ég tala nú ekki um ef settar eru skýrar reglur um hversu mikið af veiðarfærum menn megi vera með í sjó á hverjum tíma, settar reglur um stærð báta og annað þar fram eftir götunum.

Við áttum að fara þessa leið árið 2004. Það hefði verið heillavænlegast, bæði fyrir sjávarútveginn og einnig fyrir sjávarbyggðirnar. Við verðum að muna það, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, að í sjávarútvegi, útræði, útgerð og þess háttar, er ekkert athugavert við það þótt þetta sé að einhverju leyti hlutastarf hjá fólki sem býr í þessum byggðum. Það er ekkert athugavert við það.

Þetta bara er partur af lífsmunstri þessarar þjóðar, þjóðar sem hefur búið í landinu í 1100 ár. Fólk sem býr úti á landi lifir af landsins gagni og gæðum. Það er bara þannig og þannig á það að vera í framtíðinni. Það er sannfæring mín. Ef við ætlum að byggja þetta land til framtíðar er mjög mikilvægt að við tryggjum að hinar dreifðu byggðir landsins hafi aðgang að náttúruauðlindum sínum og þar með talið fiskimiðunum. Það er algjört grundvallaratriði.

Ég vonast til að næsta ríkisstjórn sem tekur við í (Forseti hringir.) landinu, virðulegi forseti, muni sýna þessum þáttum miklu meiri skilning en við höfum séð undanfarin tólf ár.