133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[20:52]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað almenningssamgöngur varðar, sem hæstv. samgönguráðherra talar fyrir, er mest áhersla lögð á flugið samkvæmt því sem ég les úr áætluninni. Það er auðvitað eðlilegt. Við þurfum að komast á milli staða á skömmum tíma. Það er eðlilegt að í landi eins og okkar leggi fólk áherslu á að komast leiðar sinnar með flugi.

Ég tel hins vegar að almenningssamgöngur í vegakerfinu okkar þurfi að skoða betur. Í fljótu bragði sé ég ekki að menn séu að setja sér einhver tímasett markmið um það hvernig endurreisa eigi langferðabifreiðarnar t.d. Ég hef ekki rekist á hugmyndir t.d. um raflestir. Hvað segja menn um raflestir á milli staða á þéttbýlissvæðinu? Af hverju könnum við ekki möguleika á því að leggja raflest á höfuðborgarsvæðinu? (Gripið fram í: Þá þurfum við að virkja meira.) Þá þurfum við að virkja meira, segir hv. formaður samgöngunefndar. Þá skulum við líka ræða hvort ekki sé skynsamlegra að virkja til þess að setja á stofn raflestir frekar en að virkja fyrir mengandi og eimyrjuspúandi stóriðju. Þá værum við að tala um að nýta orkugjafa okkar á umhverfisvænan hátt. Þá værum við ekki í þeim tvískinnungi sem mér finnst núverandi ríkisstjórn svo oft lenda í.

Hún vill vel í orði kveðnu. Ég sé að ákveðin áform eru ný af nálinni hjá núverandi ríkisstjórn en það ristir ekki nægilega djúpt af því að menn átta sig ekki á grunnprinsippunum. Við verðum umfram allt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Við gerum það ekki nema auka hlut þeirra ökutækja sem ganga fyrir vistvænum orkugjöfum, t.d. eins og rafmagni, og með því að auka hlut gangandi og hjólandi í umferðinni og efla almenningssamgöngur til mikilla muna.