133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:00]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið áður var það á grundvelli laga sem hv. þm., þáverandi samgönguráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fékk samþykkt hér á Alþingi að innheimt er gjald fyrir notkun jarðganganna.

Á sínum tíma lánaði Vegagerðin Speli fjármuni til þess að geta staðið við þær skuldbindingar að greiða arð til hluthafa. Samkvæmt samkomulaginu er gert ráð fyrir því að þetta lán verði endurgreitt inn til Vegagerðarinnar að nýju og þeir fjármunir m.a. nýttir til þess að undirbúa framkvæmdir við næsta áfanga við gerð jarðganga og framkvæmdir við breikkun vegarins að jarðgöngunum, eins og fram kom hjá hv. þingmanni. Spölur er því í fullum rétti til að nýta fjármuni sem hann innheimtir til þess að greiða skuldir sínar.