133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[16:47]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður svaraði hvorugri spurningunni sem ég lagði fyrir hann. Ég skal þá bara endurtaka þær, önnur er hvort hv. þingmaður telji að Vinstri grænir beri enga ábyrgð á þeirri uppbyggingu sem á sér stað á suðvesturhorninu með samningi Orkuveitu Reykjavíkur við Alcan í Straumsvík, um stækkun á Alcan í Straumsvík. Það var samþykkt einróma í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur með atkvæði Vinstri grænna, við skulum halda því til haga. Það er ekki mjög gömul samþykkt. Er hv. þingmaður farinn að hlaupa frá þeirri samþykkt fyrir hönd Vinstri grænna eða var þetta einstaklingsframtak fulltrúa Vinstri grænna í Orkuveitu Reykjavíkur? Auðvitað bera þá Vinstri grænir ábyrgð á því sem fram hefur farið á suðvesturhorninu eins og aðrir. Með ræðu hv. þingmanns og andsvari hans áðan eru þó Vinstri grænir augljóslega að hlaupa frá ábyrgð sinni, hlaupa frá verkum sínum, og þykir mér heldur lítilmannlegt.

Hv. þingmaður nefndi ýmsa staði á landinu. Hann nefndi m.a. Húsavík. Kannast hv. þingmaður við það að Húsavíkurlistinn svokallaði hafi boðað og auglýst eftir fjárfestingum í nágrenni Húsavíkur vegna Þeistareykja til uppbyggingar á stóriðju, til uppbyggingar á álveri? Ég veit ekki betur en að Húsavíkurlistinn hafi m.a. verið skipaður Vinstri grænum. Kannast hv. þingmaður við það? Nú skora ég á hv. þingmann að svara þeim spurningum sem fyrir hann hafa verið lagðar en fara ekki að tala um allt aðra hluti.