133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[18:39]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar maður tekur til starfa sem alþingismaður er margt að læra. Ég hugsa að ekki sé til það starf á Íslandi sem fræðir viðkomandi einstakling jafnmikið og starf alþingismannsins.

Mér varð fljótlega ljóst hversu vegamálum var illa komið í Norðvesturkjördæmi og þó sérstaklega á Vestfjörðum. Þetta kjördæmi hefur langlengsta vegakerfið af öllum kjördæmum landsins eða 42% af öllu vegakerfi Íslands. Það kom fram í máli hæstv. samgönguráðherra áðan, hann vísaði í töflu, að það er eiginlega sama í hvaða vegaflokk við leitum alls staðar er Norðvesturkjördæmi á toppnum og ef við tækjum saman lélegt ástand vega værum við líka með Norðurland vestra og sérstaklega Vestfirði á toppnum.

Vestfirðir eru sérstaklega illa settir hvað varðar samgöngur á landi og kemur engum á óvart því að við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum kappkostað að halda því á lofti og vekja athygli á því. Það sem kom mér á óvart þegar ég fór að skoða þessa áætlun var hversu tæpt er teflt í því efni sem er í rauninni öryggistæki Vestfjarða númer eitt á eftir vegunum, þ.e. flugsamgöngur. Það koma fram atriði á bls. 69 í þessari samgönguáætlun sem mér eiginlega hnykkti við að lesa, virðulegi forseti, og ég ætla að fá að vitna í. Hér segir nefnilega um blindflugsaðbúnað á Ísafirði:

„Þessi tæki eru orðin yfir 20 ára gömul og erfitt að fá varahluti. Tækin byggjast á svonefndri „back course“-tækni sem ekki er lengur leyfð samkvæmt alþjóðastöðlum.“

Í næsta kafla fyrir neðan, um flugbrautarljós, segir, með leyfi forseta:

„Kant- og þröskuldsljós á flugbraut Ísafjarðarflugvallar eru 45 W og komin til ára sinna.“

Þetta var um ástand öryggistækjanna á Ísafjarðarflugvelli. Rétt fyrir ofan stendur um Þingeyrarflugvöll, með leyfi forseta:

„Árið 2007 mun fara fram öryggisúttekt til athugunar á möguleikum fyrir nætursjónflug til flugvallarins.“

Það þýðir að gagnvart þessum flugvelli, sem við vitum með sjálfum okkur að mun geta þjónað mun betur en Ísafjarðarflugvöllur og sem reiknað er með að taki við öryggishlutverki fyrir sjúkrahúsið á Ísafirði, fyrir heilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum, er ekki meiri metnaður en þetta og að á Ísafjarðarflugvelli eru tækin orðin úrelt og varla hægt að fá varahluti og ekki leyfð samkvæmt alþjóðastöðlum.

Ég verð að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann skammist sín ekki fyrir þetta. Er þetta viðunandi, hæstv. forseti?

Á bls. 125 stendur, með leyfi forseta:

„Nefnd um einkaframkvæmd, sem samgönguráðherra skipaði á síðasta ári, hefur nýlega skilað skýrslu til ráðherra þar sem m.a. er sett fram eftirfarandi álit:

a. Markaðir tekjustofnar til samgöngumála standa að margra mati ekki undir brýnum framkvæmdum. Því er mikilvægt að finna fjáröflunarleiðir til þess að sinna slíkum samgönguframkvæmdum.“

Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Eru tekjustofnarnir sem koma inn fullnýttir? Við vitum að árlega eru gerðar áætlanir en við vitum líka að tekjurnar eru meiri en áætlanir gera ráð fyrir, því að umferð hefur aukist mun meira en við gerum yfirleitt ráð fyrir. Því er spurning mín: Eru tekjustofnarnir nýttir eða er afgangur árlega af þessum tekjustofnum sem ekki er nýttur?

Hæstv. ráðherra þrætir stöðugt fyrir að það sé niðurskurður á framlagi til vegamála. Það tekur því varla að elta ólar við það en hins vegar er ómótmælanlegt að árlegur niðurskurður hefur verið um 2 milljarðar síðustu þrjú ár í röð, samtals 6 milljarðar. Þetta heitir niðurskurður og ekkert annað.

Viðhaldsfé hefur nánast verið hið sama mörg undanfarin ár, ég er ekki að tala um fjögur eða fimm ár heldur áratugi. Þjóðvegurinn norður er meira og minna allur ónýtur og stórhættulegur og það verður að fara í að byggja hann upp.

Mig langar að lokum, virðulegi forseti, að vitna hér í bls. 60 þar sem fjallað er um markmið um jákvæða byggðaþróun sem mér fannst líka athyglisvert en þar segir, með leyfi forseta:

„Það er því ljóst að við forgangsröðun fjármagns verður t.d. ekki eingöngu tekið tillit til arðsemi framkvæmdar því að oft vega mjög þungt rök um frumtengingu byggða. Eftirfarandi verkefni falla að þessu meginmarkmiði:

a. Metin verði áhrif bættra samgangna á byggðaþróun. Hér er um að ræða verkefni sem fyrst og fremst fælist í því að draga saman á einn stað þá þekkingu sem fyrir hendi er á þessu sviði og aðeins afla nýrrar ef þörf er talin á.“

Hér sé ég að komið er verkefni fyrir Byggðastofnun og mig langar að spyrja ráðherra hvort ekki sé alveg öruggt að þetta verkefni fari þangað, því að eins og við vitum er það meðal lögskipaðra verkefna stofnunarinnar að rannsaka byggðaþróun og hvað megi verða til bóta í því efni. Það er líka talað um ítarlegar rannsóknir á ferðavenjum og að þær fari fram á vegum Vegagerðarinnar og Flugmálastjórnar. Það er sama um það að segja að ég vona að þetta verkefni verði fært til Byggðastofnunar ef það er ekki þar nú þegar, því að þetta fellur algjörlega heim og saman við það sem sett er fram í titlinum Markmið um jákvæða byggðaþróun.

Síðan ætla ég að taka undir með þeim sem talaði áðan um nauðsyn þess að Vegagerðin taki tillit til ferðaþjónustunnar. Við höfum fengið kvartanir frá ferðaþjónustaðilum vegna slæms ástands á vegum og nýverið fékk ég t.d. bréf frá ferðaþjónustubændum á Dæli í Vestur-Húnavatnssýslu sem hafa orðið fyrir því að vegi í sveitinni (Forseti hringir.) var nýlega breytt og hann lagður rétt við bæinn hjá þeim sem þýðir að þau búa í rykmekki og gestir þeirra sýknt og heilagt.