133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[16:57]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða tollkvóta við innflutning landbúnaðarafurða, 621. mál á þskj. 921.

Hinn 9. október síðastliðinn kynnti ríkisstjórnin tillögur um aðgerðir til lækkunar matvælaverðs. Hluti þeirra aðgerða snýr að samningum um gagnkvæmar tollalækkanir og bættan markaðsaðgang gagnvart helstu viðskiptalöndum Íslands. Í framhaldinu var efnt til samningaviðræðna við Evrópusambandið um tvíhliða viðskipti með landbúnaðarvörur og náðust samningar um síðastliðin áramót með gildistöku frá og með 1. mars næstkomandi.

Samkomulagið er gert á grundvelli 19. gr. EES-samningsins sem kveður á um reglulega endurskoðun á viðskiptum með landbúnaðarafurðir milli EES-aðildarríkjanna og Evrópusambandsins. Umrætt samkomulag er hið fyrsta sem Ísland og Evrópusambandið hafa gert um viðskipti á grundvelli þeirrar greinar. Í samkomulaginu eru m.a. veittir gagnkvæmir tollkvótar án aðflutningsgjalda í umfangi sem ekki hefur áður þekkst í milliríkjasamningum Íslands. Ísland veitir Evrópusambandinu kvóta fyrir kjöt, kjötvörur, kartöflur, jógúrt og ost en fær í staðinn kvóta fyrir skyr, smjör og pylsur. Hið nýja samkomulag felur í sér tollkvóta af öðrum stofni en þeim sem gilt hafa til þessa, þ.e. tollkvótar á grundvelli landbúnaðarsamnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, og tollkvóta um viðbótarmagn af markaðslegum ástæðum. Ekki er til staðar skýr lagaheimild um úthlutun þessara nýju kvóta.

Með frumvarpi þessu er landbúnaðarráðherra heimilað að úthluta tollkvótum samkvæmt öðrum skuldbindingum Íslands um innflutning á landbúnaðarvörum í fríverslunar- og milliríkjasamningum en þeim sem tilgreindar eru í 1.–3. mgr. 12. gr. tollalaga.

Með ákvæði 1. gr. frumvarpsins er landbúnaðarráðherra veitt skýr lagaheimild til að úthluta tollkvótum samkvæmt öðrum skuldbindingum Íslands um innflutning á landbúnaðarvörum en þeim sem lúta að WTO-tollkvótum og viðbótarmagni samkvæmt heimildum er ráðherra hefur í 65. gr. í búvörulögum, sbr. 6. gr. A í tollalögum.

Við gildistöku laga nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, var hætt að veita heildsöluleyfi. Því er lagt til í b-lið 2. gr. frumvarpsins að fella brott ákvæðið „Umsókn um tollkvóta má aðeins taka til greina að umsækjandi hafi heildsöluleyfi.“ Samkvæmt ákvæðum laga um verslunaratvinnu er hins vegar skylt að skrásetja verslun í firmaskrá, hlutafélagaskrá, samvinnufélagaskrá eða skrá á grundvelli löggjafar um sjálfseignarstofnanir, eftir því sem við á.

Hæstv. forseti. Aðrar breytingar sem frumvarpið felur í sér eru gerðar til samræmis við kafla- og greinaskipan í nýjum tollalögum, nr. 88/2005, sem felldu úr gildi eldri tollalög, nr. 55/1987.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til hv. landbúnaðarnefndar.