133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

barna- og unglingageðdeildin.

171. mál
[12:43]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Loksins dróst hún upp úr jörðinni, skóflan með fyrstu moldinni vegna byggingar yfir BUGL. Eftir sex ára árangursleysi með söfnunarfé frá almannasamtökum, sem er að sjálfsögðu ekkert annað en áfellisdómur um getuleysi ríkisvaldsins í þessu máli. Um er að ræða brotnustu börnin, langa biðlista ár eftir ár, eilíf slagsmál foreldra barna sem þjást af geðröskunum og geðrænum vandamálum við að fá þjónustu fyrir börnin sín — áfellisdómur um árangursleysi heilbrigðisyfirvalda í þessu máli. Þetta mál er allt hinn mesti ósómi fyrir íslenska ríkið og ríkisstjórnina. Það er eiginlega grátlegt að þurfa ár eftir ár að byrja á sama núllpunktinum aftur og aftur. En nú nokkrum dögum fyrir kosningar tekur hæstv. heilbrigðisráðherra fyrstu skóflustunguna, sex árum eftir að átti að vera búið að byggja yfir BUGL. Gott og vel. Ég veit ekki hversu alvarlega fólk tekur það en þetta mál er allt yfirvöldum til minnkunar.