133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

lesblinda.

490. mál
[14:08]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Í aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 1999 er sérstök áhersla lögð á mikilvægi þess að greinandi próf séu lögð fyrir nemendur á fyrstu árum grunnskólans og hefur menntamálaráðuneytið sérstaklega styrkt gerð ýmissa skimunar- og greiningarprófa í grunnskólanum. Í nóvember 2003 gaf menntamálaráðherra út reglugerð um breytingu á sérfræðiþjónustu skóla og breytti reglugerð frá 1996. Þær breytingar voru gerðar að tillögu samráðsnefndar um lestrarerfiðleika nemenda í grunnskólum sem menntamálaráðuneytið skipaði í febrúar 2003. Í þeirri nefnd sátu fulltrúar ráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands.

Helstu breytingar sem gerðar voru á reglugerðinni voru þær að á fyrstu árum skólagöngu ber skólum að kanna hvaða nemendur eiga í erfiðleikum með lestur og bregðast skal við með kerfisbundnum hætti þannig að öll börn fái nauðsynlega aðstoð til að ná viðunandi lestrarfærni. Sérfræðiþjónustu skóla ber að aðstoða skóla við þetta verkefni með leiðbeiningum til kennara og gerð greiningarprófa. Gert er ráð fyrir að menntamálaráðuneytið hafi eftirlit með lestrargreiningu og aðstoði skóla vegna lestrarerfiðleika nemenda með því að kalla eftir upplýsingum frá sveitarfélögum á tveggja ára fresti.

Þegar ráðuneyti menntamála athugaði vorið 2006 hvort og hvernig sveitarfélög fylgdu þessu ákvæði eftir kom fram að fylgst er reglubundið með lestrarnámi grunnskólabarna. Auk þess kom fram að hljóð- og málvitund leikskólabarna er skoðuð nánast alls staðar með því að leggja fyrir skimunarprófið Hljóm. Í grunnskólum nota flestir lesskimunarprófið Læsi á yngsta stigi og GPR14 til skimunar á unglingastigi. Á miðstigi er mjög mismunandi hvernig staðið er að skimununum hjá sveitarfélögunum. Samkvæmt upplýsingum frá skólaskrifstofum er niðurstöðu skimana að jafnaði fylgt eftir með markvissum hætti. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að skoða þetta hjá sveitarfélögunum er sú sem ég kem að varðandi þriðja lið fyrirspurnarinnar og það er að afla upplýsinga til þess að nefnd sem ég skipaði hefði sem bestar upplýsingar til að geta unnið áfram að málefnum barna með leserfiðleika. Fyrrgreind könnun bendir til þess að sveitarfélögin safni ekki með reglubundnum hætti tölulegum upplýsingum um umfang lestrarerfiðleika. Það er einnig mismunandi milli sveitarfélaga hvenær byrjað er að skilgreina lestrarerfiðleika sem leshömlun eða dyslexíu og því ekki hægt að bera saman tölur milli árganga.

Í tengslum við umsóknir um frávik á samræmdum prófum í íslensku í 7. og 10. bekk safnar Námsmatsstofnun upplýsingum um fjölda frávika vegna lestrarerfiðleika af ýmsu tagi sem ætla má að gefi mynd af umfangi vandans þó að ekki séu allir þessir nemendur með skilgreinda leshömlun eða dyslexíu. Í upplýsingum frá Námsmatsstofnun kemur fram að af þeim sem þreyttu próf í 7. bekk árið 2004 var hlutfall frávika vegna lestrarerfiðleika 11,4%, árið 2005 var hlutfall frávika örlítið lægra eða 10% og árið 2006 11,9%. Í 10. bekk tóku á bilinu 96–98% samræmt próf í íslensku á árunum 2004–2006 og hlutfall frávika vegna lestraerfiðleika var 11,2% árið 2004, 12,4 % árið 2005 og svipað árið 2006.

Ég ætla að svara öðrum og þriðja lið fyrirspurnarinnar saman. Í nóvember 2006 skipaði ég nefnd sem sérstaklega er ætlað að setja fram tillögur um eftirfarandi þætti: Í fyrsta lagi fyrirkomulag greiningar á lestrarerfiðleikum og eftirfylgni til hagsbóta fyrir nemendur með lestrarerfiðleika í grunn- og framhaldsskólum. — Frú forseti. Væri hægt að fá hljóð í salnum.

(Forseti (ÞBack): Ég vil biðja hv. þingmenn að tala saman fyrir utan salinn eða hafa lægra.)

Það er afar mikilvægt, frú forseti, að þessar upplýsingar komist skýrt og skilmerkilega til skila, því að hópurinn sem ég skipaði í nóvember 2006 hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna til þess að við getum áttað okkur á og reynt að uppfylla þarfir nemenda sem eiga við dyslexíu að etja. Hópurinn á að kanna sérstaklega fyrirkomulag greiningar á lestrarerfiðleikum og eftirfylgni hennar til hagsbóta fyrir nemendur með lestrarerfiðleika í grunn- og framhaldsskólum, stuðning við skóla og kennara þannig að þeir geti betur komið til móts við þarfir nemenda sem eiga í erfiðleikum með lestur eða lestrarnám, ráðgjöf og stuðning við foreldra barna með lestrarvanda á að skoða sérstaklega og próftöku ekki síst lesblindra nemenda með tilliti til samræmdra prófa í 4., 7. og 10. bekk. og hvernig fara skuli með undanþágur og frávik fyrir þennan nemendahóp. Ég vil geta þess sérstaklega að í fjárlögum eru ákveðnar fjárhæðir til styrktar hóps til að gera átak í málefnum lesblindra og (Forseti hringir.) vil ég benda hv. þingmanni á þær fjárhæðir.