133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

skýrsla Hagstofunnar um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2003--2004.

[11:17]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta eru alveg ævintýralegar aðferðir sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir eru að beita (GÓJ: Hagstofan.) vegna þess að þeir eru á harðahlaupum frá þeirri staðreynd að hér (Gripið fram í.) hafi misskipting aukist með því að hengja sig í punktmælingu á milli áranna 2003 og 2004. Horfum á staðreyndir. (GÓJ: Sama mæling um alla Evrópu.) Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands árið 2001 sýndi að frá árinu 1994 til ársins 2000 tekur að aukast allmikill ójöfnuður hér á landi. Fjármálaráðuneytið skilaði svari árið 2004 til hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar sem sýndi að Gini-stuðullinn, þ.e. ójöfnuðurinn hefði verið að aukast um eitt stig á ári á árunum 1995–2003, eitt stig á ári. Það sem gerist síðan í þessari úttekt Hagstofunnar er einmitt eitt stig milli áranna 2003 og 2004. Þetta ber því allt að sama brunni: Jöfn og þétt aukning á misskiptingu og ójöfnuði hér á landi.

Virðulegi forseti. Í mjög góðri grein eftir Þorvald Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands, sem er birt í dag í Fréttablaðinu nefnir hann líka að Joakim Palme, prófessor í Stokkhólmi, hafi rannsakað þróun tekjuskiptingar í Svíþjóð og hann hafi einmitt tekið allar tekjur heimilanna með í reikninginn og fjármagnstekjurnar líka og þær tölur sýna að Gini-stuðullinn í Svíþjóð árið 1993 var 22 á móti 21 hér. (Gripið fram í.) Tíu árum síðar var Gini-stuðullinn 25 í Svíþjóð og 30 hér. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Óróleikinn hér inni sýnir það að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir eru logandi hræddir við að afleiðingar þeirrar hörðu hægri stefnu sem hefur verið rekin í landinu sé að koma í ljós og útlitið er ekki fallegt. (Forseti hringir.) Staðreyndirnar sýna skýrslu eftir skýrslu aukinn ójöfnuð hér á landi og misskiptingu.