133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

íslenska táknmálið.

630. mál
[17:55]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek í þessu andsvari undir það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði áðan, að mál þetta væri ekki hafið yfir flokkadrætti. Nú talaði hér hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og lýsti yfir stuðningi við málið. Ég fagna því. Þar með eru stuðningsmenn úr þingflokki hennar með þeim sem flytja málið orðnir sjö plús hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir sem situr hér sem varaþingmaður hv. þm. Gunnars Örlygssonar og ég geri ráð fyrir að hún eigi sæti í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Þar með telst mér til að það séu 16 hv. þingmenn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem enn hafa ekki gefið sig upp í þessu máli.

Mig langar bara til að vita hvort hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins komi til með að berjast fyrir því í sínum þingflokki að málið fái það brautargengi sem það þarf til að við getum afgreitt það sem lög frá Alþingi undir vorið.