133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

sóttvarnalög.

638. mál
[19:40]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997, með síðari breytingum. Eins og fram hefur komið í umræðunni er tilgangur frumvarpsins tvíþættur. Annars vegar er verið að leggja til nýtt embætti sóttvarnalæknis og hins vegar að lögfesta alþjóðlegar tilskipanir eða reglugerðir um sóttvarnir vegna þeirrar heilbrigðisógna sem heimurinn stendur frammi fyrir af ýmsum ástæðum.

Ég vil byrja á að furða mig á því að málið sé að koma í þingið þegar sex fundardagar eru eftir af þinginu. Ég á sæti í heilbrigðis- og trygginganefnd og þar er við nóg af verkefnum að fást þó að þetta komi ekki til viðbótar. Ég velti því fyrir mér hvernig menn ætlast til þess að nefndin taki málið núna til umfjöllunar, afgreiðslu og skili því aftur í þingið á þremur nefndardögum og sex þingdögum, en það verður náttúrlega bara að koma í ljós. Ég hef ekkert á móti því að alþjóðlegar reglugerðir eða tilskipanir verði settar í lög hér. Mér finnst það alveg sjálfsagt, en við vinnslu á máli eins og þessu verðum við að kalla eftir athugasemdum. Senda þarf málið til umsagnar og það tekur auðvitað tíma að fá umsagnir um mál eins og þetta.

Hvað varðar hinn þátt málsins, að stofna nýtt embætti sóttvarnalæknis, hef ég efasemdir um að það sé sóttvörnum til framdráttar. Málið fellur undir landlæknisembættið í dag og virðist hafa gengið ágætlega. Ef einhverjir hnökrar eru þar á væri nær kannski að styrkja landlæknisembættið í stað þess að fjölga ríkisstofnunum með því að búa til nýtt embætti þarna. Ég hélt líka að það hefði verið stefna stjórnvalda að fækka frekar ríkisstofnunum en fjölga þeim.

Síðan veltir maður fyrir sér hvernig embættin eiga síðan að vinna saman, þessi tvö embætti sóttvarnalæknis og landlæknis. Auðvitað er hætta á því, þegar maður skoðar reynsluna, þegar verið er að skipta stofnunum eins og landlæknisembættinu upp á þennan hátt, að þá verði án efa einhver tvíverknaður á ferðinni, jafnvel einhverjir sameiginlegir starfsmenn og þá veltir maður fyrir sér: Hver á að vera yfir þeim starfsmönnum sem eiga að vera sameiginlegir stofnuninni? Það vakna alls konar spurningar þegar maður fer að skoða þetta. Ég er ekki viss um að þetta sé eitthvað stjórnsýslulega skýrara og held að þetta sé hið mesta vandræðamál að fara að taka þetta hér og breyta þessu á síðustu dögum þingsins. Að minnsta kosti hefði ég talið fulla ástæðu til að skoða það miklu betur og nánar en sá tími sem við höfum til verksins gefur okkur kost á.

Í dag er landlæknir með eftirlitsskráningu og ráðgjöf undir sínu embætti en auðvitað er það á hendi sóttvarnalæknis og ég held að það hafi gefist ágætlega. Ég tel að það eigi að vera þar áfram. Þannig er það með aðra sjúkdóma og ég get ekki séð að eitthvað annað ætti að gilda um sóttvarnir. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég óttast að ef það á að fara að breyta þessu verði það varla sóttvörnum til framdráttar og gæti jafnvel virkað hamlandi þegar fram í sækir sérstaklega hvað varðar stjórnsýsluna og sameiginleg verkefni.

Síðan gagnrýni ég aftur þann stutta tíma sem við höfum til að fara í gegnum málið. Ég leyfi mér líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort stjórnarflokkar séu sammála um að gera þetta. Mér finnst það mjög ólíkt Sjálfstæðisflokknum að hann sé fylgjandi því að fara að bæta við enn einni ríkisstofnuninni núna, flokki sem hefur farið fram undir kjörorðinu Báknið burt. Ég hef því efasemdir um að þarna sé fyrir hendi stuðningur Sjálfstæðisflokksins, a.m.k. er þetta mjög ólíkt honum að styðja slíkt. Það verður bara að koma í ljós. Ég á sæti í nefndinni og mun fara yfir málið þar eftir því sem tími gefst til en hef sem sagt miklar efasemdir um að þarna eigi að fara að stofna þetta nýja embætti en finnst fullkomlega eðlilegt að við lögfestum tilskipanir frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnun og öðrum þeim sem telja ástæðu til að ríki heims taki upp slíkt í baráttunni við heilbrigðisógnir sem steðja að þjóðum heims, eins og komið hefur í ljós í dag.