133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[15:06]
Hlusta

Frsm. landbn. (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég vil taka fram í tilefni af orðum hv. þm. Jóns Bjarnasonar, 8. þm. Norðvest. Ég undirstrika að þetta frumvarp felur ekki í sér breytingu á heilbrigðisreglugerðum, úthlutun kvóta eða framsal á kvóta. Þetta frumvarp er eingöngu rýmkun í samræmi við samninga við Evrópusambandið á tollkvótum sem fela vissulega í sér meiri innflutning en að öðru leyti felur frumvarpið ekki í sér neina breytingu, það er í höndum ráðherra.

Þess verður þó að geta að þeim sem komu til viðtals við landbúnaðarnefnd voru úthlutunarreglurnar ofarlega í huga og sýndist sitt hverjum um það hvort þær ættu að vera eftir útdrætti, uppboði eða útboði. Þessi afgreiðsla tekur ekkert á því máli.