133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[15:07]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú hygg ég að útfærslan á ýmsum þessum þáttum sé háð reglugerð, reglugerð sem ráðherra setur þá samkvæmt þeim lögum sem hér verða samþykkt og eru hluti af heildarlögum um þessi mál. Reglugerð hlýtur að verða sett um útfærsluatriðin. Þess vegna vildi ég hnykkja á ákveðnum atriðum varðandi þetta, varðandi hollustuna og heilbrigðið.

Ég heyri það t.d. á íslenskum kjúklingabændum að þeir telja að eftirlit með heilbrigði og hollustu á kjúklingabúum í Evrópu sé ekki eins gott og hér. Hins vegar sé það mjög hliðstætt með svín o.fl. Það er fyllsta ástæða til þess að hvergi sé slegið af hollustu- og heilbrigðiskröfum við innflutning landbúnaðarvara frekar en við gerum hér með innlenda framleiðslu.

Hitt vil ég bara ítreka að þessir tollkvótar mega ekki skapa grunn fyrir eitthvert brask eða framseljanleika á þessum leyfum. Leyfin sjálf mega alls ekki verða þannig að menn geti fénýtt sér þau með því að selja þau sem slík. Þessi atriði vildi ég bara árétta, frú forseti.