133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

þjónustusamningur við SÁÁ – virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[10:39]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Valdimar Leó Friðrikssyni fyrir að taka upp rekstrarvanda SÁÁ. Það stendur reyndar þannig á að ég á liggjandi inni fyrirspurn um sama mál sem snýr bæði að biðlistunum á Vogi og eins rekstrarvanda starfseminnar sem er undir hatti SÁÁ. Nú veit ég ekki hvort sú fyrirspurn nær á dagskrá þannig að henni verði svarað en það kemur í sjálfu sér út á eitt.

Ég held að ég verði að vekja athygli á því að það er ekki bara um erfiðan rekstrarvanda að ræða sem sannanlega þýðir að sjálfseignarstofnun eða félagasamtök eru að borga með starfsemi sem ríkið á að sinna. Það er ekki um það deilt að SÁÁ er að ganga á eignir sínar og eigið fé til að halda uppi heilbrigðisþjónustu sem hið opinbera á að veita.

Það er líka þannig að þessi knappi fjárhagur þýðir að stofnunin afkastar ekki því sem hún þyrfti að geta afkastað. Það er þriggja mánaða biðlisti inn á spítalann í sumum tilvikum og (Gripið fram í.) það er ekki hægt að þróa starfsemina eins og vera skyldi hvað varðar t.d. þjónustu við unglinga, göngudeildarþjónustu og annað í þeim dúr. Það dugar ekki fyrir hæstvirta ráðherra að koma hér aftur og aftur og vísa í raun og veru hver á annan eins og við upplifðum hér áðan þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra skýtur því þá fyrir sig að hún hafi ekki meiri fjárveitingar frá fjármálaráðherra. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Alþingi.) Ríkisstjórnin verður að svara því hvort halda eigi þessari þjónustu uppi (Gripið fram í: Þessu er búið að svara.) með sómasamlegum hætti eða hvort menn ætli að láta þá SÁÁ borga með henni ef menn taka þá ákvörðun þar þangað til starfsemin kemst í þrot. Það er ekki þannig að Alþingi hafi lagt stein í götu þess að hæstv. ráðherra fengi meiri fjármuni til þessara verkefna ef eftir því hefði verið leitað. Ég man ekki eftir því að felldar hafi verið hér tillögur (Forseti hringir.) frá heilbrigðisráðherra um aukið fé til forvarna og meðferðarstarfs.