133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

þjónustusamningur við SÁÁ – virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[10:43]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Enn einu sinni þarf að taka upp undir sérstökum lið um störf þingsins eða óundirbúnum fyrirspurnum fjárhagsvanda SÁÁ, til að ræða á hinu háa Alþingi af hverju ríkisstjórnin hundskast ekki til að gera nýjan þjónustusamning við þá merkilegu sjúkrastofnun sem hér er á landinu og er í fjárhagslegum erfiðleikum.

Stuðningsmönnum þessarar stofnunar hefur verið sent bréf, nokkurs konar neyðarkall þar sem talað er um þetta mál. Þrír kostir eru nefndir á árinu 2007:

1. Að halda áfram óbreyttum rekstri og hreinlega fara á hausinn, selja má eignir og slá lán en það mun allt enda á einn veg.

2. Að draga stórkostlega úr meðferðinni með tilheyrandi minnkuðu aðgengi og minni gæðum. Þá þarf líka að spyrja hvaða sjúklingahópar eigi að fá minni þjónustu.

3. Að ná í aukna fjármuni til rekstrar.

Það er þetta neyðarkall sem SÁÁ er að senda út til þingmanna og annarra í þessu landi til að reyna að reka ríkisstjórnina til að gera nýjan þjónustusamning sem hefur ekki verið í gildi frá því í desember 2005.

Virðulegi forseti. Það þarf stefnubreytingu hjá ríkisstjórn hvað þetta varðar. Hún þarf að hætta að horfa á fjárlög sem einhvern jólapakka sem verður að líta vel út í desember sem eitthvert sýnishorn í efnahagsmálum. Hún þarf að taka fjársveltar stofnanir og semja við þær. Það er vandi í flestöllum stofnunum ríkissjóðs úti um allt land vegna lítilla fjárveitinga.

Síðan hefur það komið í viðbót, virðulegi forseti, að forstöðumönnum ríkisstofnana er beinlínis bannað að tjá sig opinberlega um fjárhagsvandann. Þess vegna ber að hæla forsvarsmönnum SÁÁ fyrir að þora (Forseti hringir.) að koma fram og gagnrýna þetta. (Forseti hringir.) Hæstv. heilbrigðisráðherra vill gjarnan gera samning. Ég spyr: Hvers vegna er hann þá ekki gerður? (Forseti hringir.) Er það kannski Sjálfstæðisflokkurinn sem stoppar það?