133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

heilbrigðismál á Austurlandi.

[13:45]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það er áhyggjuefni hvað stjórnvöld hafa dregið lappirnar í því að stuðla að uppbyggingu á opinberri þjónustu á Austurlandi í kjölfar þeirra auknu umsvifa sem orðið hafa á svæðinu, m.a. vegna Kárahnjúkavirkjunar og stóriðjuframkvæmda í Reyðarfirði, en einnig vegna aukinnar ferðaþjónustu á svæðinu. Þegar maður hlýðir hér á svör hæstv. ráðherra, ég tala nú ekki um hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur, má heyra að uppbygging sjúkrahúsþjónustunnar hafi alveg fylgt þeim auknu umsvifum sem hafa orðið á svæðinu. (Gripið fram í.) En hvað segja heimamenn? (Gripið fram í.) Þeir segja bara allt aðra sögu, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, þeir segja nefnilega allt aðra sögu. Hann ætti að vita það manna best vegna þess að greinargerð kom frá þeim þar sem þeir lýsa því að skera hafi þurft niður þjónustu. Sú greinargerð fór inn í fjárlaganefnd Alþingis 15. september sl. Þetta er staðan, það hefur þurft að skera niður þjónustu og þetta er afstaða heimamanna, en afstaða stjórnarliða er sú að ástandið sé býsna gott.

Ef til vill endurspeglar þetta viðhorf stjórnarliða til landsbyggðarinnar og sem kemur fram í fleiri málum, því miður. Það er búið að leggja niður opinbera þjónustu víða á landsbyggðinni, það kom fram í svörum til mín að það hafi orðið sú þróun að það hafi orðið samdráttur í opinberri þjónustu á landsbyggðinni, störfum hefur fækkað meðan þeim hefur fjölgað gríðarlega á höfuðborgarsvæðinu þar sem þenslan hefur orðið hefur hvað mest. Þar sem samdráttur ríkir eins og víða á landsbyggðinni, ég tala nú ekki um eins og á norðausturhorninu, er ríkisstjórnin í þeim verkum að fækka opinberum störfum eins og fækkun starfa hjá Ratsjárstofnun leiðir af sér.

Ég vona að þingmenn í fjárlaganefnd lesi þær greinargerðir sem berast m.a. af Austurlandi og tali um ástandið eins og það er og fari í gegnum það. Þar kemur skýrt fram að (Forseti hringir.) þurft hafi að skera niður þjónustu.