133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[15:31]
Hlusta

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. forseta fyrir þá lipurð og þann góða samstarfsvilja sem kemur fram af hálfu hans og þeirra sem að forsetanum standa varðandi það að fá þessa þingsályktunartillögu til umræðu sem við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar flytjum. Sömuleiðis vil ég þakka hæstv. starfandi utanríkisráðherra fyrir að vera viðstaddur umræðuna.

Við vitum það öll sem hér höfum setið á hinu háa Alþingi síðustu árin að það hafa ekki skapast jafnheitar og tilfinningaríkar umræður í nokkru máli eins og varðandi stuðning Íslands við innrásina í Írak. Ég hef sagt það og ég held að flestir leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafi lýst því yfir að þar sé um að ræða einhvern svartasta blettinn á utanríkisstefnu íslenska lýðveldisins og án efa er það sá gerningur sem mun lifa í minningu þjóðarinnar og verða að neðanmálsgrein í mannkynssögunni um þessa ríkisstjórn.

Því miður er það þannig, herra forseti, að þetta verður bautasteinninn sem mun standa yfir höfuðsvörðum þessarar ríkisstjórnar þegar hún er öll innan nokkurra mánaða. Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur hins vegar margoft óskað eftir því að menn gerðu þessi mál upp með vasklegum og drengilegum hætti. Það hefur líka margoft komið fram á síðustu vikum og missirum, sérstaklega hjá forustumönnum Framsóknarflokksins að þeir telja að stuðningur Íslands við innrásina í Írak hafi verið mistök. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem nú er starfandi utanríkisráðherra hefur sagt að þetta hafi byggst á röngum upplýsingum og þar af leiðandi hafi þetta verið röng ákvörðun. Ákvörðunin hefur hins vegar leitt til mikilla hörmunga fyrir borgara Íraks og þótt ég ætli ekki að gera íslenska stjórnmálamenn að sérstökum sektarlömbum í því máli þá er það hins vegar alveg ljóst að sá siðferðilegi stuðningur sem Bandaríkjamönnum og Bretum var gefinn með yfirlýsingu hinna 30 viljugu vígfúsu þjóða skipti sköpum og hann skipti miklu máli.

Nú er það að vísu svo að það er langt um liðið og því hefur verið haldið fram að það skipti litlu máli þó að menn taki núna með formlegum hætti til baka stuðning Íslands við innrásina. En það skiptir máli fyrir íslensku þjóðina, það skiptir máli fyrir okkur sem sitjum á hinu háa Alþingi og það skiptir máli fyrir samvisku allra þeirra sem hafa heitar og mannúðlegar tilfinningar í hjarta sínu og það er þess vegna, herra forseti, sem ég flyt ásamt hv. þm. Ögmundi Jónassyni og Magnúsi Þór Hafsteinssyni tillögu til þingsályktunar um yfirlýsingu gegn stuðningnum sem stjórnvöld veittu innrásinni í Írak. Tillagan hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka Ísland með formlegum hætti út af lista þeirra 30 þjóða sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak vorið 2003 og lýsir því yfir að stuðningurinn við innrásina hafi verið misráðinn.“

Þetta er efni tillögunnar, herra forseti. Ég tel sérstaklega miðað við yfirlýsingar forustu Framsóknarflokksins að það hljóti að vera tímabært að samþykkja ályktun með þessum hætti. Við höfum heyrt ýmsa íslenska stjórnmálamenn, sérstaklega þá sem hafa sýnt vott af samviskubiti í þessu máli og þar á ég fyrst og fremst við forustumenn Framsóknarflokksins, við höfum hlustað á þá segja það upp á síðkastið að þetta hafi verið byggt á röngum upplýsingum og þá hlýtur að vera hægt að lýsa því yfir til að hreinsa þetta mál að stuðningurinn hafi verið misráðinn. Það er ekki farið fram á annað og að því er Framsóknarflokkinn varðar þá er það stuðningur forustu hans við þetta mál sem skipti sköpum fyrir stöðu flokksins. Það var sá stuðningur sem sleit taugina á millum forustu flokksins og baklandsins og það var sú ákvörðun sem leiddi til þess að flokkurinn er í þeirri stöðu sem hann er núna.

Stuðningurinn við innrásina í Írak var veittur án þess að nokkurt lögbundið samráð væri haft við utanríkismálanefnd Alþingis. Það hefur líka komið fram hjá varaformanni Framsóknarflokksins að það mál var aldrei rætt í ríkisstjórn Íslands og að því leytinu til finnst mér að það hljóti að leika lagalegur vafi á því að ríkisstjórnin eða forustumenn ríkisstjórnarinnar, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, hafi haft heimild til þess að taka þessa ákvörðun. Ég segi það, herra forseti, vegna þess að ég dreg mjög í efa eins og ýmsir þingmenn stjórnarliðsins hafa talað síðustu sex mánuði að það hafi verið meiri hluti fyrir þessum stuðningi á hinu háa Alþingi. Ákvörðunin var tekin af þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra einum. Stjórnarandstaðan stóð öll sameinuð gegn þessari ákvörðun og hún hefur margsinnis lýst harðri andstöðu, jafnt við innrásina sem þá fordæmalausu aðferð sem forustumenn ríkisstjórnarinnar beittu til þess að spyrða Ísland með þessum hætti við innrásarþjóðirnar. Það hefur komið fram í ítrekuðum könnunum að það er yfirgnæfandi vilji íslensku þjóðarinnar að þetta verði með einhverjum hætti leiðrétt og það má rifja það upp að a.m.k. ein könnun sem ég sá varðandi fylgi þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn leiddi það í ljós að 90%, þ.e. 9 af hverjum 10 framsóknarmönnum voru andvígir þessu.

Þessi ákvörðun sem á sínum tíma var tekin og leiddi, að mínu viti, til alþjóðlegrar hneisu fyrir Ísland braut í blað. Þarna var um að ræða algera stefnubreytingu af Íslands hálfu til stríðsátaka. Við skulum rifja það upp, herra forseti, að skömmu eftir að Ísland varð lýðveldi var því hafnað hér á Alþingi, árið 1945, að lýsa yfir stríði á hendur Þýskalandi og Japan sem helstu bandamenn okkar voru þó í átökum við um alla veröld. Þegar Íslendingar gerðust stofnaðilar að NATO fimm árum eftir að þeir urðu lýðveldi, þá tóku Íslendingar það sérstaklega fram að þeir mundu ekki lýsa yfir stríði á hendur nokkurri þjóð. Þarna var því að öllu leyti verið að breyta fyrri afstöðu Íslendinga og þarna var verið að fara á svig við lögin og ég hef sagt það áður og ætla að endurtaka það, herra forseti, í þessum ræðustól að að mínu viti var þarna um að ræða löglausa og siðlausa ákvörðun.

Við skulum líka muna að á þessum tíma voru rökin tvenns konar fyrir stuðningi við innrásina. Í fyrsta lagi að í Írak væri að finna miklar bækistöðvar alþjóðlegra hermdarverkasamtaka al Kaída og í öðru lagi að þar væri að finna gereyðingarvopn. Þetta voru rökin sem voru notuð til að skýra og styðja afstöðu tveggja forustumanna ríkisstjórnarinnar. Hvað hefur reynslan leitt í ljós? Jú, það hefur komið fram að al Kaída hafði engar bækistöðvar í Írak og það hefur ekkert komið fram sem benti til þess að þeir hefðu starfað í skjóli Saddams Husseins og haft vígstöðvar eða bækistöðvar í Írak. Og það sem hefur einnig komið fram er að það var hvorki tangur né tetur af gereyðingarvopnum í Írak. Einu leifarnar sem fundust í þeim voru eiturefnavopn sem höfðu verið búin til í skjóli Breta upp úr árinu 1980. Þetta var reyndar upplýst áður en íslensk stjórnvöld tóku þessa ákvörðun. Þetta var upplýst af þáverandi forustumanni í breska Verkamannaflokknum, utanríkisráðherra Robin Cook sem hafði aðgang að nákvæmlega sömu trúnaðarupplýsingum og Blair forsætisráðherra sem aftur voru hin sömu og bandarísk stjórnvöld höfðu og hann upplýsti það áður en hann dó í merkri afsagnarræðu í breska þinginu að ekkert hefði bent til þess að þetta væri rétt. Nú getum við auðvitað haldið því fram að þó að mikilvægur ráðherra í ríkisstjórn gamals heimsveldis eins og Breta hafi haft þessa vitneskju þá sé ekki hægt að gera því skóna að íslenskur forustumaður eins og Davíð Oddsson eða Halldór Ásgrímsson hafi hugsanlega haft þá vitneskju og á það er hægt að fallast.

Hins vegar verður að rifja það upp að þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hafði verið í aðdraganda innrásarinnar í Írak algerlega andsnúinn því að í hana yrði ráðist með stuðningi ríkja á borð við Ísland vegna þess að Halldór Ásgrímsson vildi gefa vopnaeftirlitsnefnd Hans Blix sem starfaði á vegum Sameinuðu þjóðanna meiri tíma til þess að ganga úr skugga um hvort einhver gereyðingarvopn væri að finna í Írak. Hann skipti um skoðun á einni viku. Og hvað var það sem olli því að formaður Framsóknarflokksins á þeim tíma skipti um skoðun? Það væri hægt að spá með margvíslegum hætti í það. En eitt er ljóst að hann gerði það eftir kvöldfund með Davíð Oddssyni og eftir samráð við bandaríska sendiherrann. Sá eini sem haft var samráð við hér á landi var fulltrúi bandaríska heimsveldisins. Þetta er auðvitað alveg af og frá og það er ekki hægt að segja annað en að það er skammarlegt fyrir Framsóknarflokkinn að hafa með þessum hætti bundið trúss Íslendinga við innrásina í Írak eftir að hafa talað gegn henni mánuðum saman eins og formaður Framsóknarflokksins gerði.

Hann sagði síðan, sá ágæti maður, áður en fætur hans urðu kaldir í íslenskum stjórnmálum að þetta hefði verið byggt á röngum upplýsingum. Framsóknarflokkurinn hefur síðan sagt það mörgum sinnum. En ef þetta var byggt á röngum upplýsingum þá var þetta röng ákvörðun og þá eiga menn að biðjast afsökunar á því og Alþingi Íslendinga þarf fyrir sitt leyti að hreinsa þetta mál og það verður best gert með því að því verði lýst yfir að Ísland sé með formlegum hætti tekið út af lista þeirra 30 þjóða sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak vorið 2003.

Herra forseti. Hér var fyrir nokkrum vikum rætt um þetta sama málefni. Þá kom það fram m.a. hjá varaformanni Framsóknarflokksins að það væri heldur skrýtið að fara að ætlast til þess núna að Íslendingar lýstu þessu yfir og það væri engin þörf á því og þar að auki hefðu Íslendingar ekki komið að þessu máli með virkum hætti öðruvísi en að styðja uppbyggingarstarf í Írak og hann tilgreindi sérstaklega að það hefði verið veittar 300 millj. til þess.

Mig langar þess vegna til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra og eftir atvikum hæstv. landbúnaðarráðherra í tilefni af yfirlýsingu hans hér: Er það rangt munað hjá mér að Íslendingar hafi tekið að sér að flytja vopn til Íraks? Er það rangt munað hjá mér að íslenska ríkisstjórnin hafi greitt fyrir flutning á mörgum flugvélaförmum af vopnum frá Slóveníu til Íraks? Er það líka rangt hjá mér, herra forseti, að íslenska ríkisstjórnin hafi greitt fyrir þjálfun írakskra öryggissveita? Hvað er það annað en bein þátttaka í þeim átökum sem þarna voru? Ég fæ ekki annað séð. En ég vil vísa, herra forseti, til stikla um alþjóðamál sem hægt er að finna eða var a.m.k. á heimasíðu utanríkisráðuneytisins og eru dagsettar 18. febrúar 2005 en þar kemur þetta fram. Mig langar þess vegna að spyrja þessa ágætu menn þegar þeir halda því fram að Íslendingar hafi bara tekið þátt í uppbyggingarstarfseminni í Írak: Er það rétt fullyrðing, með tilliti til þess að íslensk stjórnvöld greiddu fyrir flutning á vopnum til Íraks? Er það rétt fullyrðing með tilliti til þess að íslensk stjórnvöld greiddu líka fyrir þjálfun írakskra öryggissveita? Þetta finnst mér mikilvægt að komi fram, herra forseti.

Ég vil að lokum ítreka að mér þætti vænt um það í aðdraganda flokksþings Framsóknarflokksins, sem formaður flokksins er sérstaklega viðkvæmur fyrir að sé minnst á í þessum sal, og mig langar til að fá það fram hjá forustu Framsóknarflokksins sem á heiður skilið fyrir að sitja hérna: Telja þeir ekki að það sé rétt að hreinsa þetta mál upp í eitt skipti fyrir öll og vilja þeir ekki styðja stjórnarandstöðuna í því að samþykkja ályktun á Alþingi þar sem Ísland er með formlegum hætti tekið út af lista þeirra 30 þjóða sem studdu innrásina?