133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[17:15]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svör hans. Ég skildi þá ræðu hans upphaflega rétt og er sáttur við það. Hins vegar er skilaverðið til alveg skilgreint hjá Bændasamtökunum hvernig neytendakrónan skiptist hvað sauðfjárafurðirnar varðar. Við vitum að vinnslukostnaðurinn er hár, kostnaður frá bónda til borðs í búð er hár og það skapast m.a. af háum launum hér á landi og ýmsum kröfum sem við gerum til slíkrar vinnslu sem þar er um að ræða.

Við þekkjum það hjá nágrönnum okkar í Færeyjum þar sem ekki eru til nokkur einustu sláturhús að þar eru lömbin seld á fæti og þeim er einfaldlega slátrað á hlaðinu eða einhvers staðar. Það er eina úrræðið sem við sjáum til að minnka þennan milliliðakostnað en við ætlum auðvitað ekki að innleiða það hér í þeim mæli sem Færeyingar gera eða ekkert í þeim mæli, það er bara alfarið sláturhefð þeirra og þannig verður millibilið milli neytandans og bóndans minna. Þessi kostnaður er hár hér á landi. Miklar kröfur eru gerðar á öllum stigum til þessarar vinnslu og það er jafnframt sérkenni þessarar framleiðslu að sláturtíð er einungis einu sinni á ári. Það er dýrara að slátra gripum þar sem framleiðslan byggir á því heldur en kjúklingum og svínum sem eru í verksmiðjuframleiðslu allt árið um kring. Það er ýmislegt, eins og ég hef sagt áður í andsvari, sem er sérstakt og sértækt við sauðfjárframleiðsluna sem gerir það að verkum að hún verður dýrari en önnur framleiðsla.