133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

samkomulag við Færeyjar og Grænland um skipti á ræðismönnum.

69. mál
[11:40]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Jón Kristjánsson, sem bæði er hv. þingmaður og starfandi formaður utanríkismálanefndar, a.m.k. í dag, lýsir þeirri skoðun sinni að það sé góð regla að framkvæmdarvaldið bíði með að hrinda í framkvæmd ákvörðunum Alþingis þangað til búið er að ganga frá þeim ákvörðunum. Ég vildi leyfa mér að taka dýpra í árinni. Ég vil segja að það sé reglan með ákveðnum greini. Mér finnst það nokkuð óviðkunnanlegt að utanríkisráðuneytið geri því skóna að þingið afgreiði mál með hinum eða þessum hætti. Auðvitað er ég sammála hv. þingmanni um að það hefur ekki nokkur einasti maður lagt nokkurt gegn þessu máli. Það hefur komið fram á þinginu ansi sterkur vilji til þessarar gjörðar. Hins vegar hefur líka komið fram á þinginu jafngóður og hlýr hugur í garð nágranna okkar í vestri, Grænlendinga, og ég spyr sjálfan mig: Hvað veldur því að utanríkisráðuneytið ræðst í það í krafti þess góða og yfirlýsta vilja sem fram hefur komið á Alþingi að opna ræðismannsskrifstofu í Færeyjum en ekki í Grænlandi? Er einhver sérstakur munur á milli þessara tveggja ríkja? Höfum við ekki reynt að gera allt sem við höfum getað til að efla samskiptin við grannann í vestri? Það hefði verið ágætt að grípa líka til þess í þessu samhengi.

Hins vegar vil ég bara segja að mér finnst það óviðkunnanlegt af ríkisstjórninni að ráðast í framkvæmd af þessu tagi og gera ráð fyrir því að vilji Alþingis hnigi á einn eða annan veg. Ég held að það sé ekki í samræmi við góða og rétta stjórnarhætti. Mér fannst hv. þingmaður vera mér sammála um það og ég segi það líka að ég er þeirrar skoðunar að það sama eigi að gilda um Færeyjar og Grænland og það hefði verið mér nokkuð þakklátt ef utanríkisráðuneytið hefði líka verið búið að gera ráð fyrir vilja Alþingis varðandi Grænland og ganga frá hinu sama og varðandi Færeyjar.