133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

atvinnu- og byggðamál á Vestfjörðum.

[15:16]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra lýsir því yfir að þetta vandamál verði sérstaklega tekið til umræðu í ríkisstjórninni. En ég spyr aftur og einnig hvort forsætisráðherra sé tilbúinn til þess að ræða við þann hluta af þingmannahópi Vestfjarða sem yrði kjörinn til þess að ræða við ríkisstjórnina um ákveðna stefnumótun og ákveðnar tillögur ef þingmannahópurinn næði saman um slíkt.

Ég geri mér vel grein fyrir því að í aðdraganda kosninga er þetta ekki auðvelt viðfangsefni fyrir okkur í stjórnmálaflokkunum, hvar í flokki sem við stöndum. Ég tel hins vegar að það sé tilraunarinnar virði að reyna að ná saman með ríkisstjórninni í aðgerðum vegna þess að á Vestfjörðum er ástandið ekki viðunandi, hefur reyndar lengi verið óviðunandi að mörgu leyti. Það er alveg nauðsynlegt að bregðast við því með markvissum og skipulögðum aðgerðum.