133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:09]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í upphafi umræðunnar tel ég að rétt að skerpa svolítið á henni. Í greinargerð með frumvarpinu er vikið að 72. gr. stjórnarskrárinnar í niðurlaginu, með leyfi forseta:

„Með ákvæðinu er til dæmis ekki haggað við eignar- og afnotaréttindum þeirra sem hagnýta jarðir og ýmis fasteignatengd réttindi eða stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda.“

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvers vegna ekki sé sett inn í tillögur ríkisstjórnarinnar það skýra ákvæði að þjóðareign megi ekki selja eða láta varanlega af hendi. Það varð þó niðurstaða, ef ég man rétt, úr starfi auðlindanefndar á sínum tíma. Ég spyr einnig: Hvers vegna er ekki skilgreining í tillögunni á þeim eignum sem ekki falla undir slíkt ákvæði, þ.e. fasteignarréttindi manna eða vatn?

Tilefni þess að ég spyr, hæstv. forseti, er að mér sýnist að með þessari tillögu ríkisstjórnarinnar sé í raun verið að festa í sessi til framtíðar það sem menn kalla óbein eignarréttindi útgerðarmanna sem hafa haft völd til þess á undanförnum árum að selja og leigja aflaheimildir án þess að þurfa að taka tillit til byggða eða byggðaþróunar í landinu. Þess vegna nægir hæstv. forsætisráðherra ekki að vitna í sameignarákvæðið í lögunum um stjórn fiskveiða. Framkvæmdin hefur verið önnur.