133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[17:38]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður gerði að umtalsefni 1. mgr. laga um stjórn fiskveiða. Þar segir að auðlindin í hafinu sé sameign íslensku þjóðarinnar. Hv. þingmaður heldur því fram með sterkum rökum að það veiki þetta sameignarákvæði í fiskveiðistjórnarlögunum ef því er ekki skotið inn í stjórnarskrárákvæðið og fortakslaust kveðið á um það að ekki megi selja eða framselja með varanlegum hætti þessa eign.

Ég er algerlega sammála hv. þingmanni en ég tel að það veiki líka sameignarákvæðið sérstaklega að ríkisstjórnin skuli hafa birt mjög skýra stefnubreytingu varðandi þetta núna. Báðir stjórnarflokkarnir sem nú sitja að völdum hafa áður lýst því yfir, bæði í auðlindanefndinni og sömuleiðis í undirhópi stjórnarskrárnefndar, að þeir séu sammála því að vinna beri að því að taka upp í stjórnarskrá ákvæði þar sem það kemur algerlega skýrt fram að ekki megi framselja eða láta með varanlegum hætti af hendi þjóðareignina. Enn fremur hafa þeir ljáð samþykki sitt við því í báðum þessum nefndum að einungis megi láta afnotaréttindin af höndum tímabundið. Nú gerist það hins vegar að þeir leggja fram mál þar sem þeir hafa tekið þetta til baka. Þeir leggja fram tillögu þar sem búið er að taka til baka þessi lykilákvæði þeirra og ekki er hægt að túlka það öðruvísi en sem stefnubreytingu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það eitt og sér veikir að mínum dómi verulega sameignarákvæðið sem er að finna í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga, þannig að ill var hin fyrsta för þeirra í þessu máli. Ég vona, frú forseti, að það takist að koma vitinu fyrir þessa ágætu menn. Það hefur stundum tekist þótt erfitt sé.