133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[00:47]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn hefur engan hug á því að sættast við fólkið á Vestfjörðum. Honum virðist nánast skítsama um fólkið á landsbyggðinni. Það er eins og að það komi honum ekkert við. Það er bara kerfið, að það gangi upp. Mér misbýður að menn horfi svona á lífsafkomu fólks og eignir verða að engu, eins og við erum því miður að verða vitni að víða á landsbyggðinni.

Ég átta mig í rauninni ekki á því hvað Sjálfstæðisflokkurinn er að fara. Og að tala um að ég hafi ekki sáttahug kemur úr hörðustu átt. Sjálfstæðisflokkurinn talar niður til fólksins eins og að það skipti engu máli. Það hafa komið út opinberar skýrslur sem hafa sýnt fram á samhengi þess að þegar aflaheimildir hafa horfið úr byggðum hefur fólkið farið á eftir þeim.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvers vegna við erum að halda þessu kerfi gangandi, kerfi sem skilar minni afla en fyrir daga þess. Eigum við ekki að leita leiða til að komast út úr svona kerfi, leita leiða til að auka atvinnufrelsi? Ég hefði talið að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að vera í fararbroddi hvað það varðar.

Nei. Sjálfstæðisflokkurin er miklu frekar að halda einhverju kerfi í heiðri, kerfi sem hefur ekki skilað neinu, kerfi sem hefur komið í veg fyrir nýliðun og komið af stað verðhruni eigna. Og ég spyr. Er Sjálfstæðisflokknum nákvæmlega sama um landsbyggðina?