133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[23:47]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér og fara aðeins yfir efnisatriði reglugerðar en það er alveg rétt að við í sjávarútvegsnefnd sáum drög að henni í vinnsluferlinu. Það eru nokkur atriði sem mig langar að spyrja aðeins betur út í varðandi reglugerðina því það skiptir máli eins og ég sagði í máli mínu hvernig hún verður uppsett. Það er spurning um lágmarksverð, spurning um hvernig verðleggja á aflann, hvort það sé hugmyndin að einhverjar skýrar verði reglur um það í reglugerð vegna þess, eins og ég hef sagt, að byggðakvóti er ekki bara fyrir þá útgerð sem hann fær í hendur heldur ætti ekki síður að horfa á byggðakvóta sem aðstoð við byggðarlagið í heild sinni og þar með þá vinnslu sem kemur til með að nýta þann afla. Það má segja að það sé kannski lítil hjálp í því fyrir vinnslu ef hún þarf að borga fullt markaðsverð fyrir þann afla sem kemur í gegnum byggðakvótakerfið því hún getur alveg eins náð sér í þann afla á fiskmarkaði á sama verði. Þá sæti í raun og veru allur hagnaður eða ábati af því að hafa fengið byggðakvóta úthlutað eingöngu hjá útgerðarmanninum og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geri ráð fyrir því að í reglugerðinni verði einhvers konar ákvæði um þetta. Eins langar mig að spyrja hvort það verði ekki örugglega á hreinu í reglugerðinni að komi fram kærur á úthlutun þá verði úthlutun frestað þannig að ekki verði um neina úthlutun að ræða ef kæra liggur fyrir fyrr en búið er að afgreiða kæruna, þannig að menn lendi ekki í því að úthluta kvóta, síðan komi kæra en svo sé jafnvel búið að veiða kvótann þegar úrskurðað er í kærunni.