133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

nefnd um ferðasjóð fyrir íþróttahreyfinguna.

[20:32]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er rétt sem kom fram og nefndin hefur nýverið skilað ágætri skýrslu um ferðasjóð íþróttafélaga sem er fyrst og fremst til þess að styrkja svæði á landsbyggðinni sem eiga sérstaklega erfitt með að halda uppi íþróttastarfsemi sökum fjarlægðar við höfuðborgarsvæðið og mikils ferðakostnaðar sem leiðir til þess, eins og við þekkjum, hv. þingmenn, að erfiðlega gengur að halda úti íþróttastarfi og veita börnum alls staðar út um land tækifæri til að sinna íþróttum.

Nefndin er nýbúin að skila af sér og ég kynnti skýrsluna núna í vikunni fyrir ríkisstjórninni og hún er þar til umræðu og afgreiðslu. Það er verið að fara yfir ítarlegar tillögur nefndarinnar og ég bind vonir við að hægt verði að afgreiða þetta mál út úr ríkisstjórn innan tíðar.