133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

íslenska friðargæslan.

443. mál
[21:21]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Þetta mál fékk ítarlega athugun í utanríkismálanefnd. Nefndin fékk á sinn fund Bergdísi Ellertsdóttur og Önnu Jóhannsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Kristján Sturluson, Sólveigu Ólafsdóttur og Helgu Þórólfsdóttur frá Rauða krossi Íslands, Guðrúnu D. Guðmundsdóttur og Brynhildi G. Flóvenz frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og Árna Múla Jónasson frá Íslandsdeild Amnesty International.

Málið var sent til umsagnar til ýmissa aðila eins og greint er frá í nefndaráliti meiri hlutans. Við afgreiðslu málsins náðist ekki samkomulag í nefndinni þannig að það var afgreitt með meiri hluta utanríkismálanefndar og vissi ágreiningurinn fyrst og fremst að orðalagi 1. gr. frumvarpsins. En nefndin var að öðru leyti sammála um breytingartillögur við frumvarpið.

Síðan eftir að minni hluti utanríkismálanefndar hafði lagt fram sína breytingartillögu við 1. gr. frumvarpsins var málið tekið fyrir að nýju í utanríkismálanefnd og náðist samkomulag um orðalag 1. gr. eins og skýrist á þingskjali 1340. Ég á von á því að minni hlutinn muni draga sína breytingartillögu til baka.

Um þetta er það að segja að í síðustu grein breytingartillögu nefndarinnar við 1. gr. segir, með leyfi forseta:

„Verkefni íslensku friðargæslunnar mega aldrei brjóta í bága við ákvæði mannúðar- og mannréttindasamninga.“

Þetta er nánar skilgreint í framhaldsnefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Helstu samningar sem hér um ræðir eru mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna frá 1948, samningar Evrópuráðsins um mannréttindi og má þar helst nefna samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 1950 (mannréttindasáttmála Evrópu), með breytingum og viðaukum, Evrópusamning um varnir gegn pyndingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, ásamt bókunum, Genfarsamningana frá 1949 auk ýmissa samninga Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi.“

Frú forseti. Ég sé ekki ástæðu til að rekja nákvæmlega þær breytingartillögur sem við flytjum. Gerð er glögg grein fyrir þeim í nefndaráliti okkar. Eins og ég sagði náði utanríkismálanefnd saman um þetta mál. En hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ritar þó undir nefndarálitið með fyrirvara.

Það eru allt svo breytingartillögur á þingskjölum 1340 og síðan 1198 sem nefndin mælir með að verði samþykktar.