133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[22:43]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni fyrir þessa yfirlýsingu sem þurfti sem sé að kalla hér eftir í sérstökum ræðum. Ég vek athygli á því að það sem við í stjórnarandstöðunni gerðum var að þegar þetta samkomulag náðist, sem ég held að ekkert okkar sem sitjum þar fyrir Samfylkinguna og Vinstri hreyfinguna – grænt framboð hafi verið mjög ánægt með, ákváðum við að gera ekki fyrirvara vegna þess að við mátum málið þannig að við yrðum að standa alveg heil að þessu samkomulagi. Við ætluðum vissulega að gera í ræðum grein fyrir því hvernig þetta samkomulag náðist en gerðum ekki fyrirvara.

Sú óvenjulega staða er uppi að eini nefndarmaðurinn sem gerir fyrirvara í þessu máli er eini fulltrúi Framsóknarflokksins í málinu, varaformaður nefndarinnar og auðvitað órjúfanlegur hluti af hinum hefðbundna meiri hluta í nefndinni. Þá vaknar spurningin: Til hvers er þessi fyrirvari gerður? Þingmaðurinn ætlaði greinilega ekki að gera grein fyrir honum.

Er hann kannski gerður til þess að strika undir þann núning og þá fjarlægð sem í þessu máli og öðrum virðist vera innan Framsóknarflokksins milli hæstv. umhverfisráðherra Jónínu Bjartmarz og síðan manna eins og hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar? (Gripið fram í.) Er Guðjón Ólafur Jónsson að reyna að telja kjósendum í Reykjavík með einhverjum hætti trú um að hann njóti hér einhvers sjálfstæðis eða hann sé til í einhverju eigin valdi, að hann hafi einhverja sérskoðun, að hann sé hluti af einhverjum nýjum Framsóknarflokki þegar hann er bein framlenging af þessum elsta blessaða flokki í landinu sem nú stefnir beint niður við í umhverfismálum og öðrum málum?