134. löggjafarþing — 2. fundur,  31. maí 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:58]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Íslenskt þjóðfélag hefur gjörbreyst á síðasta áratug. Hagvöxtur hefur verið mikill í landinu. Íslensk fyrirtæki hafa haslað sér völl um víðan heim. Fjölbreytni í atvinnulífi hefur stóraukist og umbylting hefur orðið í menntamálum þjóðarinnar. Fráfarandi ríkisstjórn undir forustu Geirs H. Haardes og forvera hans hefur skilað góðu verki.

Nú er komið að nýjum áfanga sem vonandi færir þjóðinni áframhaldandi framfarir. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur á bak við sig mikinn meiri hluta kjósenda, góðan þingstyrk og fyrirheit um áframhaldandi uppbyggingu íslensks samfélags. Með þennan styrk að bakhjarli hafa flokkarnir komið sér saman um stefnumörkun til næstu ára þar sem höfuðáherslan er lögð á kröftugt efnahagslíf en enn fremur stóraukna áherslu á heilbrigðismál, mennta- og menningarmál og umhverfismál.

Það er gömul saga og ný að vandasamt er að taka við góðu búi. En lengi má gera gott betra og um leið og við treystum þann árangur sem náðst hefur verðum við að vera sívakandi fyrir því að grípa ný tækifæri. Því er sérstaklega ánægjulegt hve metnaðarfullur og framsækinn stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er. Það er lykilatriði að tryggja að Ísland verði áfram í fremstu röð þjóða en það gerist ekki af sjálfu sér. Við verðum við stöðugt að bæta samkeppnishæfni landsins á öllum sviðum. Grundvallarstefið í þeirri vinnu er að skapa jöfn tækifæri landsmanna.

Ástæða er til að fagna þeirri ákvörðun að hafin verði vinna við gerð rammafjárlaga til næstu fjögurra ára. Í rammafjárlögunum á sérstaklega að huga að hagsmunum þeirra sem búa úti um land með því að leggja mikla áherslu á eflingu innviða samfélagsins á sviði samgangna og fjarskipta.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vill leggja áherslu á að allir landsmenn hafi greiðan aðgang að menntun, þjónustu og atvinnu, óháð búsetu. Í því sambandi er sérstaklega mikilvægt að huga að mikilvægi menntunar. Stefnt er að því að efla list- og verkmenntun á öllum skólastigum. Það er æskilegt fyrir börnin okkar að þau séu strax á fyrstu árum skólagöngu sinnar kynnt fyrir íslenskri menningu þannig að sú menntun verði samofin skólagöngu þeirra og lífsviðhorfi allt frá upphafi. Við sem búum úti á landi gerum það ekki síst lífsgæðanna vegna. En við vitum líka að traustir innviðir eru forsenda þess að samfélagið vaxi og dafni.

Í Norðausturkjördæmi eru starfandi afar sterk fyrirtæki á sviði sjávarútvegs, matvælaframleiðslu og iðnaðar, að ógleymdum Háskólanum á Akureyri, sem eiga allt sitt undir blómlegu mannlífi og kröftugum innviðum. Ný fyrirtæki eru að hasla sér völl í kjördæminu, m.a. á fjármálamarkaði, vegna þess að menn sjá þau miklu lífsgæði sem fólgin eru í kyrrlátara samfélagi og nálægð við náttúruna, fyrir fjölskyldur og einstaklinga. Það skiptir ekki höfuðmáli hvar við búum, heldur að við sköpum samfélag þar sem frumkvæði og kraftur fólks fær að njóta sín.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru umhverfismálin sett í samhengi við stefnumörkun til framtíðar. Vinnu við rammaáætlun verði flýtt til ársloka 2009 sem er afar mikilvæg ákvörðun. Í því felst eindreginn vilji að leiða helstu ágreiningsmál til lykta og byggja um leið heilsteypta umhverfisstefnu og náttúruverndaráætlun. Með þessu móti getum við tekið afstöðu til þeirra svæða sem við viljum vernda til framtíðar. Þegar er kominn fram skýr ásetningur um að stækka Vatnajökulsþjóðgarð með því að vatnasviði Jökulsár á Fjöllum verði bætt við þjóðgarðinn.

Engum blandast hugur um að í heiminum er aukin áhersla lögð á umhverfismál. Við Íslendingar erum svo lánsamir að glíma ekki við mörg þau erfiðu verkefni í umhverfismálum sem aðrir þurfa að takast á við, t.d. að brenna olíu og öðrum mengandi orkugjöfum til rafmagnsframleiðslu og fleiri þarfa. Þvert á móti erum við í fararbroddi í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Á þeim grunni erum við farin að flytja út þekkingu okkar. Hámenntun á sviði tækni- og orkumála er grundvöllur áframhaldandi atvinnusköpunar og útrásar á erlendri grundu.

Til þess að tryggja hvort tveggja í senn, farsæla verndun umhverfisins og sjálfbæra nýtingu auðlinda lands og sjávar, þurfum við að vera sífellt leitandi að nýrri þekkingu og nýjum hugmyndum. Ein þeirra er að beita skattkerfinu og efnahagslegum hvötum til að hafa áhrif á viðhorf fólks til umhverfisins þannig að fólk og fyrirtæki sjái sér beinan hag í því að vernda náttúruna og breyta lífsháttum sínum til betra samræmis við hagsmuni náttúrunnar. Það er því farsælast á öllum sviðum að fólk finni að saman geti farið hagsmunir einstaklingsins og heildarinnar.

Góðir Íslendingar. Ég þakka kjósendum það mikla traust sem ég hef fundið í Sjálfstæðisflokknum í nýafstöðnum alþingiskosningum. Því trausti munum við ekki bregðast. — Ég þakka þeim sem hlýddu.