134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[21:04]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eins og leiðtogum ríkisstjórnarinnar sé fyrirmunað að skilja um hvað málið snýst. Hæstv. utanríkisráðherra heldur að það að breyta Stjórnarráðinu sé bara hennar eigin svunta eða hennar eigin peysa.

Ég er búinn að fara hér yfir ræðu Bjarna Benediktssonar sem var stór stjórnmálamaður. Fyrir 50 árum sagði hann, með leyfi forseta:

„Þetta er áreiðanlega þýðingarmeira mál en í fljótu bragði skyldi ætla og mál sem mikilsvert er, eins og sum fleiri, að menn reyni að koma sér saman um að leysa án flokkságreinings. Það eru líkur til þess í lýðræðisþjóðfélagi að flokkar skiptist á um völd, einn hafi völdin í dag, annar á morgun.“

Bjarni Benediktsson leit svo á að sín eigin svunta, sín eigin peysa, ætti engu að ráða í málinu heldur væri það þingræðið, jöfn skipting og sterk ráðuneyti.

Þegar hæstv. utanríkisráðherra játar smæð sína hér rifjast upp fyrir mér að fyrir nokkrum mánuðum flutti hún frumvarp um breytingu á Stjórnarráðinu. Þar leggur hæstv. utanríkisráðherra til að ráðuneytin verði níu og jafnræði á milli þeirra í verkefnum. Ég vil bara spyrja: Hvað hefur breyst á þessum tíma?

Svo vil ég segja að málið snýr ekkert að neinum sársauka hvað mig varðar. Mér sárnar hins vegar ef grípa á af óráðvendni til aðgerða gagnvart landbúnaðarráðuneytinu til að skerða möguleika þess til að þjóna atvinnuveginum. Ég hef verið að fara yfir það og hef sagt við þessa umræðu að auðvitað geta þessir gömlu atvinnuvegir verið saman í einu ráðuneyti. Ég fagna því ef matvælin koma þar inn, en ég vil að þetta sé gert af virðingu.

Ég undra mig því á þessari umræðu og mér finnst hún taktlaus (Forseti hringir.) af hálfu forustumanna stjórnmálaflokka. Bjarni Benediktsson var svo framsýnn að flytja sína ræðu hér fyrir 50 árum og bið nú hæstv. forustumenn flokkanna að lesa þá ræðu og læra af henni.