134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

vandi sjávarbyggðanna.

[13:48]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég tek fagnandi boði hv. þingmanns um samstarf á þessu sviði. Það er alveg hárrétt sem hér kemur fram, aðgerða er þörf. Þessi ríkisstjórn mun ekki og hefur ekki sýnt Flateyringum tómlæti eins og hér kom fram hjá hv. málshefjanda. Ég vil að það komi alveg skýrt fram að starfandi hefur verið sérstök Vestfjarðanefnd sem hefur gert tillögur um flutning opinberra starfa til Vestfjarða, þeirra sjávarbyggða sem að líkindum eru hvað verst staddar eins og sakir standa. Við vitum að staðan á ekki eftir að batna þegar við horfum framan í niðurstöður nýrrar skýrslu Hafrannsóknastofnunar.

Ég vil þess vegna að það komi fram hérna að nú þegar er búið að auglýsa 8–10 störf sem tengjast tillögum Vestfjarðanefndar og það hefur verið tryggt af hálfu ríkisstjórnarinnar að á næstunni muni 10 störf til viðbótar verða auglýst beinlínis handa þeim sem búa á Vestfjörðum. Hér er því um að ræða 20 opinber störf sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir að verði flutt til Vestfjarða. Það hlýtur að skipta máli og það er tæpast hægt að kalla það tómlæti af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Það sem skiptir hins vegar hvað mestu máli fyrir þau samfélög sem eru í vanda á landsbyggðinni er að styrkja grunngerð þeirra. Við þurfum að gera það með átaki í samgöngumálum til að jafna flutningskostnað og stytta fjarlægðir, við þurfum að gera það með því að hækka menntunarstig og þar með launastig í byggðunum og gera þær meira aðlaðandi, með því að gera landsbyggðinni kleift að rækta menningu sína og með því að tryggja jafnræði allra landsmanna í fjarskiptum. Vestfirðir búa t.d. ekki við jafnræði um fjarskipti og það gerir það að verkum að Vestfirðingar eiga erfitt með að notfæra sér ýmis þau störf sem ríkisstjórnin gjarnan vill gefa þeim kost á að vinna í krafti verkefna eins og starfa án staðsetningar. Þessu verður að breyta og ég treysti hæstv. samgönguráðherra manna best til að gera það.

Það sem við höfum séð gerast á Flateyri er skuggahlið kvótakerfisins, en það sem þar gerðist er í anda eðlis kvótakerfisins og það þarf þess vegna ekki að koma á óvart, (Forseti hringir.) þetta hefur gerst áður. Við þurfum að reyna að koma í veg fyrir að það gerist nokkurn tímann aftur.