134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[18:46]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér í þessum sal nota menn bara alþýðlegt orðfæri. Ég er bara alþýðupungur og ég tala eins og þeir, kem bara af götunni og ég tala eins og venjulegt fólk.

Ég spurði hv. þingmann hvort hún hefði einhverja leiðbeiningar til mín um hvernig ég mætti tala. Á ég kannski að tala eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem kallar menn druslur og gungur? Það var ekki lamið í hausinn á honum með sleggju forseta þegar það var sagt, en menn hafa hins vegar ekki tekið það upp eftir honum.

Nei, ég bara spyr, herra forseti, vegna þess að ég kann því heldur illa, en ég læt það yfir mig ganga, að hv. þingmaður komi hingað og geri athugasemdir við fas mitt. Ég vil bara vara hv. þingmann við því að yfirleitt er ég glaður og reifur, stundum vakna ég illa, bara eins og hver annar alþýðupungur, og þá kannski sér þess stað í máli mínu hér í þinginu. En það er ekki tilefni til þess að þingmenn komi og geri einhverjar móðurlegar leiðbeiningar um fas mitt.

En ég (Forseti hringir.) tek því eins og hverju öðru hundsbiti. Allir hafa málfrelsi, líka iðnaðarráðherra.