134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:25]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það hefur vakið athygli mína eins og fleiri hér í umræðunni að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa lítið sést í þingsalnum og hafa varla stigið fæti inn fyrir græna þröskuldinn. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lítið blandað sér í umræðuna í þessu mikilsverða máli fyrir utan hv. þm. Einar Odd Kristjánsson sem sá ástæðu til að lýsa yfir andstöðu við málið og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum í þeim efnum. Hann spurði hvers vegna væri verið að flytja þetta mál og það má auðvitað spyrja að því líka eins og hann. Þetta eru fyrst og fremst stefnuyfirlýsingar sem Alþingi mundi, ef samþykkt verður, gera að sínum en væru ekki skuldbindandi og þeim fylgja ekki fjárframlög.

Ástæðan er hins vegar augljós og við hljótum að átta okkur á henni í þessari umræðu, það er verið að flytja þetta mál til að koma böndum á Sjálfstæðisflokkinn. Samfylkingin er að reyna að festa í stjórnarsamstarfinu þetta ákvæði sem flokkurinn leggur greinilega mikla áherslu á að nái fram að ganga og treystir Sjálfstæðisflokknum ekki nógu vel í málinu eða að hann er það tregur í taumi við að hrinda þessum áformum í framkvæmd að það hefur reynst nauðsynlegt til þess að tryggja efndir í málinu að flytja þingsályktunartillögu og gera málið að samþykkt Alþingis til að binda Sjálfstæðisflokkinn niður. Það er verið að hæla niður tjaldhæla Sjálfstæðisflokksins svo að hann hlaupist ekki frá þessum yfirlýsingum. Það er hinn pólitíski veruleiki sem skín út úr þessari umræðu, virðulegi forseti, og blasir við hverjum þeim sem vill sjá að Sjálfstæðisflokkurinn er greinilega mjög tregur í þessu máli.

Ég hygg að upphaf þessarar tillögu um aðgerðaáætlun megi rekja til áherslna núverandi félagsmálaráðherra sem hún lagði fram sem þingmaður í stjórnarandstöðu. Hún birti m.a. í Morgunblaðinu grein síðasta aðfangadag undir heitinu Jól í skugga fátæktar þar sem þingmaðurinn þáverandi, og núverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, rakti þann veruleika sem hún telur að blasi við, að það séu jól í skugga fátæktar hjá um 5 þús. börnum í um 3 þús. fjölskyldum í landinu, þ.e. milli 10 og 12 þús. manns sem eigi ekki fyrir brýnustu lífsnauðsynjum. Ég tel að með þessari þingsályktunartillögu sé ráðherrann í raun og veru að fylgja eftir þeirri sýn sem þingmaðurinn setti fram á síðasta þingvetri og tillögunni sé ætlað að bæta úr að þessu leytinu til, að taka á þeirri fátækt sem talin er vera í landinu og er óumdeilanlega miklum mun meiri en menn höfðu kannski áttað sig á. Vissulega held ég að allir þingmenn séu á þeirri skoðun að það sé rétt að bregðast við til þess að bæta úr. Þess vegna vekur það athygli mína hvað Sjálfstæðisflokkurinn er tregur í þessu máli og af því að ég held að þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilji eins og aðrir bæta úr fátækt í landinu, sérstaklega fátækt sem lýtur að börnum, væri mjög fróðlegt ef það kæmi fram í þessari umræðu hvaða úrræði Sjálfstæðisflokkurinn hefur í þessu máli önnur en þau sem er að finna í þessari þingsályktunartillögu. Það hlýtur að vera munur á skoðunum flokkanna í þessum efnum og það væri mjög fróðlegt að fá fram sjónarmið sjálfstæðismanna um hvaða aðgerða þeir vilja grípa til til þess að bæta úr þeirri fátækt sem fjölskyldur um 5 þús. barna eiga í samkvæmt skýrslu sem lögð var hér fram á síðasta þingvetri, frá hæstv. forsætisráðherra að ég held.

Í þessari grein núverandi félagsmálaráðherra nefnir ráðherrann nokkur atriði sem eiga að vera aðgerðir, í fyrsta lagi að hækka skattleysismörk. Núverandi félagsmálaráðherra telur í greininni að skattleysismörk ættu að vera um 40–50 þús. kr. hærri á mánuði en þau voru í desember ef þau hefðu haldið í við vísitölu. Ég finn ekkert um þetta atriði í þessari aðgerðaáætlun til fjögurra ára. Ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra: Er það vegna þess að ekki náðist samkomulag milli stjórnarflokkanna um að hækka skattleysismörkin?

Í öðru lagi nefnir ráðherrann sem aðgerð í grein sinni í desember hækkun barnabóta og hana er vissulega að finna í þessari þingsályktunartillögu. Þar er gert ráð fyrir því með almennum hætti sem stefnu að hækka barnabætur tekjulágra fjölskyldna. Það hefur komið fram í máli hæstv. félagsmálaráðherra að barnabætur hafi lækkað um 10 milljarða á undanförnum árum og ég hlýt að spyrja: Er það markmið í þessari þingsályktunartillögu að skila þessari skerðingu til baka, virðulegi forseti? Er það hinn pólitíski veruleiki, hið pólitíska markmið núverandi ríkisstjórnar, að á þessum fjórum árum eigi að skila til baka þeim 10 milljörðum sem barnabætur hafa verið skertar um á undanförnum áratug miðað við tilteknar forsendur sem komu fram í frumvarpi sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi hæstv. félagsmálaráðherra, flutti á Alþingi í janúar á þessu ári?

Ég spyr líka um barnabæturnar vegna þess að í athugasemdum segir að meiningin sé að hækka tekjutengdan hluta barnabóta en dæmið sem ráðherrann nefndi í ræðu sinni laut að því að hækka tekjurnar sem viðkomandi foreldri má afla sér án þess að skerða barnabætur. Á þessu er munur og ég spyr hvort eigi að gera, halda barnabótunum föstum og heimila foreldrum að afla meiri tekna án þess að skerðingar hefjist eða að halda skerðingarmörkum óbreyttum og hækka barnabæturnar.

Þá nefndi ráðherrann í greininni sem ég hef gert hér að umtalsefni að húsnæðiskostnaður hefði hækkað mjög mikið og svo lyfja- og lækniskostnaður og ég sé ekkert um það í þessari aðgerðaáætlun að það eigi að lækka húsnæðiskostnað eða lækka lyfja- og lækniskostnað þannig að ég spyr: Náðist ekki samkomulag um þessi atriði þannig að þau náðu ekki fram að ganga inn í þessa almennu pólitísku stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar?