134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:44]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert og samrýmist stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og er algjörlega í takt við þær kröfur sem við höfum sett fram á Alþingi Íslendinga í átta ár að rammaáætlunin fái blessun Alþingis og fái umfjöllun hér og að hún fái lögformlegt gildi áður en farið er að vinna eftir henni. Ég fagna því og hef gert það áður í fjölmiðlum þegar ég sá að það var hluti af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Á hinn bóginn verð ég að gera athugasemdir við ræðu hæstv. iðnaðarráðherra þar sem kemur fram að hann muni ekki skipta sér af rannsóknarleyfinu í Gjástykki. Rannsóknarleyfið í Gjástykki leiðir af sér slík náttúruspjöll að ekki verður annað sagt en að það setji stefnu Samfylkingarinnar í uppnám ef hún getur látið sér í léttu rúmi liggja að einu af fáum háhitasvæðum sem eftir eru óröskuð verði raskað í hennar tíð og það kannski fyrsta sumarið sem þessi ríkisstjórn hennar starfar. Það er mjög alvarlegt mál og ég hefði viljað fá annars konar svör frá hæstv. ráðherra hvað þetta varðar.

Varðandi svo ríkisstjórnina sem hefur eina skoðun að sögn hæstv. iðnaðarráðherra, þá er auðvitað alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er á annarri skoðun hvað varðar Norðlingaölduveitu en Samfylkingin. Ef starfað verður innan ríkisstjórnarinnar eins og hún hefur gefið okkur tilefni til að ætla að starfað verði hér á Alþingi, þ.e. að beitt sé meirihlutavaldi eins og gert var á fyrsta þingfundi varðandi kjör í nefndir, þá skyldi maður ætla að stíllinn innan ríkisstjórnarinnar verði sá að sá sem meirihlutavald hefur þar, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, komi til með að sveigja einhverja samfylkingarráðherra inn á sinn vilja. Ég lýsi því yfir úr þessum ræðustóli að ég er skíthrædd um að á (Forseti hringir.) þessu kjörtímabili klingi Norðlingaölduveita af því að Samfylkingin kemur til með að lyppast niður í því máli (Forseti hringir.) eins og öðrum.