134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

áhrif framsals aflaheimilda í sjávarbyggðum landsins.

[13:36]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu sem er auðvitað nauðsynleg, og sjálfsagt að við reynum að taka hana og komast að því hvernig hægt er að skipa þessum málum svo best verði á kosið. Sjávarútvegur okkar er grundvallaratvinnugrein og við höfum reynt að skipuleggja hann þannig að hann geti verið, eins og hefur verið, burðarás fyrir góð lífskjör í landinu. Við megum aldrei missa sjónar á því að sjávarútvegurinn okkar verður að hafa tækifæri til að keppa, ekki bara á alþjóðlegum vettvangi heldur líka innan lands.

Núna hafa verið að koma fram nýjar atvinnugreinar sem hafa keppt við sjávarútveginn um fólk og fjármagn og auðvitað verður sjávarútvegurinn að hafa tækifæri til þess að geta svarað þeirri samkeppni með því skipulagi sem við búum honum. Og það er athyglisvert að í þeim löndum sem við berum okkur saman við, t.d. nágrannalönd okkar sem byggja á sjávarútvegi sem höfuðatvinnugrein eða líta þannig á að sjávarútvegurinn sé alvöruatvinnugrein en ekki bara einhver stuðningsatvinnugrein, eins og hann er sums staðar, byggja menn á einstaklingsbundnum veiðirétti. Stundum kalla menn það kvóta, stundum dagakerfi. Það breytir í sjálfu sér ekki neinu. Í báðum tilvikum er um að ræða einstaklingsbundinn rétt sem hefur m.a. í sér fólginn möguleika á framsali. Á framsalinu er sú jákvæða hlið að það leiðir til þess að hægt er að draga úr tilkostnaði, minnka sóknartengdan kostnað, og það er það sem við höfum síðan gert. Þeir sem hafa talað fyrir annars konar einstaklingsbundnum rétti, þ.e. dagarétti, færeyska kerfinu, hafa eins og t.d. flokkur hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar lagt það til til viðbótar við þetta sérstök byggðaleg úrræði, byggðakvóta. Hv. þingmaður hefur t.d. verið talsmaður þess að auka byggðakvótann og þess vegna kom mér nokkuð á óvart þegar hann talaði um að byggðakvóti væri blekking. Byggðakvóti er ekki blekking, byggðakvóti er tæki til að bregðast við því sem eru neikvæðar afleiðingar af framsalinu sem við sannarlega þekkjum. Ég vek athygli á því að við höfum reynt að byggja inn í fiskveiðistjórnarkerfi okkar mjög umtalsverða þætti sem hafa einmitt það markmið að reyna að draga úr hinum neikvæðu áhrifum á því sem við sjáum varðandi framsalskerfið. Við erum með margs konar takmarkanir á framsali aflaheimilda. Sumar þessar takmarkanir hafa virkað, aðrar ekki. Ég hef t.d. vakið athygli á því að 50% veiðiskyldan virkar ekki sem skyldi og þess vegna hef ég lýst því yfir, og ítreka það núna, að ég tel að við þurfum að endurskoða þann þátt málsins. Við þurfum að gera hann þannig úr garði að annaðhvort höfum við þessa reglu um 50% veiðiskyldu þannig að hún virki alveg eins og Alþingi ákvað á sínum tíma — Alþingi ákvað að auka þessa veiðiskyldu á sínum tíma og þá er það auðvitað okkar verkefni að gera þau lög þannig úr garði að þau nái tilgangi sínum. Tilgangurinn var alveg augljós, hann var sá að þeir sem fengju aflaheimildirnar mundu nýta þær að mestu leyti þótt við hefðum þetta svigrúm síðan til framsalsins.

Við erum með kröfu um það hvað einstök skip geta þá fiskað. Við höfum líka tekið frá sérstakar aflaheimildir til smábáta og við höfum gert það þannig að við settum á framsalstakmarkanir þannig að þeir sem eru með aflaheimildir í minna kerfinu geta leigt til sín aflaheimildir frá stærra kerfinu en þeir sem eru í því stærra geta ekki tekið aflaheimildir frá hinum minni. Þannig erum við líka búin að byggja inn framsalstakmarkanir. Og af hverju gerðum við það? Vegna þess að við sáum að þessir bátar stóðu undir atvinnulífinu í þessum veikustu byggðarlögum. Þess vegna bjuggum við til framsalstakmarkanir fyrir þessa minni báta. Við höfum síðan búið til alls konar önnur úrræði til að bregðast við þegar verður vá í byggðunum, hvort sem það er vegna þess að verið er að selja burtu aflaheimildir eða vegna þess að við höfum upplifað bresti í t.d. rækju- eða innfjarðarveiðum öðrum. Þá höfum við sett þetta upp. Þess vegna finnst mér mjög ósanngjarnt þegar talað er um að við horfum ekki með nokkrum hætti til hinna beinu hagsmuna byggðanna. Það höfum við sannarlega verið að gera.

Ég hef líka lýst því yfir að ég telji að við þurfum að fara betur yfir það hvernig við getum styrkt forkaupsréttinn þannig að í byggðunum gefist mönnum a.m.k. ráðrúm til að bregðast við þegar upp kemur sú staða sem við höfum séð koma stundum upp á undanförnum árum. Það er örugglega ekki einfalt mál að gera það en það er hins vegar óhjákvæmilegt.

Ef við skoðum síðan tilfærslurnar sem orðið hafa í aflamarkskerfinu er athyglisvert að þær hafa auðvitað verið umtalsverðar. Þær hafa a.m.k. verið talsverðar getum við örugglega sagt. Þær hafa einkanlega átt sér stað milli byggðarlaga á landsbyggðinni. Og af hverju er það? Jú, það er vegna þess að veiðirétturinn í sjávarútveginum er fyrst og fremst bundinn við byggðirnar og þess vegna hafa tilfærslurnar ekki verið frá landsbyggðinni til Reykjavíkur. Ef við skoðum síðustu ár sjáum við að veiðiréttur hefur t.d. minnkað í Reykjavík. Þetta hefur verið framsal, þetta hafa verið tilfærslur milli byggðarlaga á landsbyggðinni.