134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[12:21]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það sem hv. þingmaður sagði um mikilvægi þess skrefs að létta af öllum sérreglum og sérákvæðum í fyrirtækjarekstri þannig að eitt megi yfir alla ganga. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði um mikilvægi þess. Ástæðan fyrir því að Alcan kýs að fara inn í þetta umhverfi núna eða fór fram á það fyrir fjórum árum er væntanlega sú að fyrirtækið sér sér hag í því enda kemur fram í fylgiskjali frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að ríkið þarf að endurgreiða að því er mér sýnist í fljótu bragði um 200 millj. kr. til Alcans fyrir hvert það ár sem liðið er frá því að þetta kom fram.

Ég nefndi við 1. umr. að það er fleira en skattskil fyrirtækis af þessum toga sem skiptir máli. Það sem skiptir höfuðmáli er raforkuverðið og raforkusamningurinn og ég spyr hv. þingmann eins og ég spurði við 1. umr.: Er hún mér sammála um að þar eigi líka að vera skýrar og ljósar reglur og allt uppi á borði? Í fyrsta samningi ríkisins við Alusuisse frá 1967 hvíldi engin leynd yfir raforkuverðinu. Hún var fyrst tekin upp 1995 eða 1996. Ég hvet hv. þingmann til að styðja viðleitni okkar vinstri grænna í að létta hulunni af raforkuverði til stóriðju á Íslandi.