134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:33]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræddum þetta mál ítarlega í gær en hv. þingmaður var ekki við þá umræðu. Þetta var allt saman rætt, líka það að 80 þús. kr. sem við felldum í morgun fyrir stjórnarandstöðunni er líka frumvarp ójafnaðar. Þeir sem geta ekki unnið fá 126 þús. kr. út úr Tryggingastofnun en maðurinn við hliðina á honum, sem getur unnið, í nákvæmlega sömu stöðu byrjar ekki að skerðast fyrr en hann er kominn upp í samtals 206 þús. kr.

Þetta eru hvort tveggja ójafnaðarfrumvörp. Ég nefndi það líka í umræðunni í gær og er ekkert feiminn við það. Það sem við erum að segja er að það er sjálfsagt að nýta reynslu og krafta þess fólks sem er búið að skila sínu, orðið sjötugt, þess sem það vill. Það er mikil þörf í atvinnulífinu fyrir starfskrafta þessa fólks og það liggur á að koma þessu í gegn vegna þess að gamalt fólk getur ekki beðið, eðli málsins samkvæmt.

Það var mikil áhersla lögð á það í stjórnarmyndunarviðræðunum að ná 25 þús. kr. í gegn. Það gekk ekki tæknilega og það verður sett í gang eins hratt og hægt er, líka með það sjónarmið að baki að gamalt fólk getur ekki beðið. Það frumvarp er hins vegar afskaplega tekjujafnandi. Það er eina frumvarpið sem er virkilega til þess að jafna stöðu manna því að 10 þús. manns sem eru með minni lífeyri úr lífeyrissjóði en 25 þús. kr. munu njóta þess. Það verður mikil bót fyrir þá sem eru verst settir.

Svo vil ég benda á að það eru ein aldursmörk í viðbót. Menn geta frestað töku lífeyris til 72 ára aldurs. Það eru ýmis aldursmörk í gangi í kerfinu. Enn fremur vil ég benda á að við tókum það upp í nóvember að minnka verulega skerðingar á tekjum með því að 60% af tekjum teljist til tekna en 40% ekki.