134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[15:29]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að því miður er misbrestur á því að málefnaleg sjónarmið ráði alltaf um ráðningu starfsmanna, og líka í hinu opinbera kerfi. Tímabundnar ráðningar án auglýsinga o.s.frv. þekkjast og sum ráðuneyti hafa kannski gengið lengra í því en önnur. Ég leyfði mér að nefna eitt þeirra hér áðan. Þó að kannski sé ekki sanngjarnt að skella allri skuldinni á utanríkisráðuneytið er það þó þannig að miðað við sögu þess undanfarin ár og þegar það er skoðað hefur það æðioft fengið ofanígjöf fyrir að hafa stytt sér leið í slíkum efnum.

Ég met svör hv. þingmanns mikils og finnst virðingarvert að hann einn samfylkingarmanna leggur út í það hér að reyna að verja heiður flokksins í þessum efnum. Mér finnst hins vegar málsvörnin veikluleg.

Konur sækja ekki um störf sem þær vita ekki að eru laus, frú forseti, það er nefnilega það sem er. Það er það sem þarna er verið að benda á. (Gripið fram í.) Ef stöður eru auglýstar og allir hafa jafna aðstöðu til að sækja um þær, ef konur sækja um til jafns við karla og það er gengið fram hjá þeim þótt hæfari séu eða að öðru leyti eigi að styðjast við ákvæði jafnréttislaga gilda þau og það er hægt að sækja rétt sinn á grundvelli þeirra laga. (Gripið fram í.) Það sem er verið að segja hér er að þetta býður upp á svigrúm til ómálefnalegra aðferða við ráðningar í stöður innan Stjórnarráðsins og það er miklu meiru fórnað með því en að halda auglýsingareglunni inni og frekar styrkja hana, auka frekar gagnsæið en að draga úr því. Það vita allir sem vilja að gagnsæi bæði hvað varðar stöðuveitingar og launakjör uppi á borðinu er skásta tækið í baráttunni við kynbundinn launamun og þann aðstöðumun sem konur búa við varðandi ráðningar og starfskjör. Það er ekkert um það deilt. Einstöku ofstækisnýfrjálshyggjumenn reyna kannski að halda einhverju öðru fram, að markaðurinn muni leiðrétta þetta af því að hann sé svo eigingjarn að hann muni alltaf velja hæfni á undan öðru en annað kemur nú á daginn. (Forseti hringir.)

Þetta er eins einfalt og það getur verið, þetta mál er afturför en ekki framför.