135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:56]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Við gerum okkur fulla grein fyrir því, frú forseti, að ekki hafa öll landsvæði notið hagvaxtar á sama hátt. Við gerum okkur líka vel grein fyrir því að þar eykur þorskaflasamdrátturinn á vandann. Þess vegna erum við með mótvægisaðgerðir í gangi, sérstaklega til að hjálpa þessum landsvæðum. Þrátt fyrir að eftirspurn sé eftir vinnuafli í heildina tökum við samt ákveðna áhættu. Það er ákveðin áhætta fólgin í því að setja peninga inn á þessi svæði. Þess vegna styðjum við Byggðastofnun, til þess að Byggðastofnun geti komið inn á þessi svæði ef bankarnir eru ekki tilbúnir til að lána peninga. Í þessu er fólgin ákveðin áhætta og við viljum gera þetta.

Mér finnst það ekki sanngjarn málflutningur að halda því fram að við séum markvisst að draga hlutina á höfuðborgarsvæðið þegar við erum að setja meiri peninga en áður hefur verið gert í samgönguframkvæmdir, sem eru eðli málsins samkvæmt að langmestu leyti úti á landsbyggðinni, og erum meira að segja að draga úr fjármunum til þeirra framkvæmda sem áætlaðar eru á höfuðborgarsvæðinu þó að það sé vegna þess að þær eru einfaldlega ekki tilbúnar. Mér finnst það ekki sanngjarn málflutningur og ekki alveg í takt við annars vel ígrundaða umfjöllun hjá hv. þingmanni í ræðu hans áðan. Það er verið að reyna að gera grein fyrir því að óvissa er í stöðunni og það er verið að takast á við þau vandamál sem hann hefur áhyggjur af í þröngri stöðu vegna þess ástands sem hann að hluta til er að lýsa. Og ég held að hv. þingmaður eigi að sýna þá sanngirni að virða það við ríkisstjórnina, það sem er á þeim nótum í fjárlagafrumvarpinu.