135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:26]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið nokkuð lengi við völd og lagt áherslu á lækkun skatta, einkum skatta einstaklinga með háar tekjur og fyrirtækja. Ég vildi fá fram hvort til standi að halda áfram að lækka skatta á hátekjumenn en eins og með margt annað í þessu frumvarpi er erfitt að sjá það þar sem það er ekki unnið til fullnustu. Útfærslan er eftir og því erfitt að átta sig á því hvernig fara eigi með afgreiðslu þessa máls.

Ég spyr hv. þm. Ástu Möller hvar hún telji að einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni muni fyrst bera niður. Það er mjög ákveðin stefna Sjálfstæðisflokksins, og af þeim sökum gerði Sjálfstæðisflokkurinn kröfu um að fá heilbrigðisráðuneytið til sín, að auka einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni. Erfitt er að lesa út úr fjárlagafrumvarpinu hvað stendur fyrir dyrum í þeim efnum en ríkisstjórnin boðar að auka einkarekstur og það væri áhugavert að fá upplýsingar um á hvaða sviði þær tilraunir eða fyrirhuguðu breytingar yrðu. Við vitum að Framsóknarflokkurinn stóð gegn öllum hugmyndum um frekari einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni en nú er kominn nýr flokkur til samstarfs, Samfylkingin. Við áttum okkur ekki alveg á því, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hvort sá flokkur muni standa áfram í ístaðinu eða hvort gefið verði í og klárnum hleypt á skeið.