135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

3. fsp.

[13:51]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Staðreyndin er sú að sjávarútvegsráðuneytið er enn að vinna í kærum er snúa að byggðakvóta vegna fiskveiðiársins 2006/2007. Þar eru mál enn í ákveðnum farvegi. Það gefur ekki tilefni til bjartsýni um að byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2007/2008 verði úthlutað fljótlega ef marka má söguna.

Það er einfaldlega staðreynd, hæstv. forseti, að aldrei hefur verið nein sérstök hrifning meðal margra sjálfstæðismanna á því fyrirbæri sem byggðakvótinn er. Það er eðlilegt að við veltum því fyrir okkur hvort verið sé að reyna með skipulegum hætti að sverta það orðspor sem fer af byggðakvótanum, því að framkvæmdin á úthlutun á byggðakvóta af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins hefur verið með eindæmum og við getum ekki fengið svör hér hvenær ráðuneytið ætlar að auglýsa byggðakvótann fyrir árið 2007/2008 og það er miður.