135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

fyrirhugaður flutningsstyrkur Atvinnuleysistryggingasjóðs.

[14:34]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að skilja þennan málflutning, hér er hreinlega öllu snúið á hvolf. Hér er látið eins og tillagan um búferlastyrki sé ein af tillögum ríkisstjórnarinnar í mótvægisaðgerðum. Málið er bara ekki þannig. Þetta ákvæði í lögum hefur verið til í 26 ár. Það ber ekki vott um að mikill hvati sé til þess að nýta sér það þegar einungis átta styrkir hafa verið veittir á síðustu tíu árum. Samt nota hv. þingmenn hér stór orð, eins og að þetta sé hvati til að örva flutning frá landsbyggðinni, aðför að byggðunum í landinu og að verið sé að bera fé á fólk til að flytja það burt af landsbyggðinni. Þetta er bara ekki svona, þetta er ekki þannig.

Ríkisstjórnin lagði ekki til þess tillögu. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur verið með þessar tillögur uppi á sínu borði. Í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs eiga sæti m.a. fulltrúar BSRB, fulltrúar ASÍ og fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þeir hafa ekki lagt fram tillögu um að hætta við þessa styrki. Mér finnst þetta mjög einkennilegur og sérkennilegur málflutningur sem hér fer fram.

Ég hef sagt að vinnumarkaðsráðin, átta talsins, muni nú fjalla um þessa tillögu en í þeim sitja t.d. fulltrúar sveitarstjórna á þessum stöðum. Ef í ljós kemur að þeir vilja ekki þessa styrki, vilja jafnvel fella þá úr lögum, þá verður það skoðað. Ég get líka sent félagsmálanefnd umsagnir vinnumarkaðsráðanna og látið félagsmálanefnd sjálfa ákveða hvort hún vilji breyta þessum styrkjum eða afnema þá. Ég frábið mér að það sé borið á ríkisstjórnina að þetta sé liður í mótvægisaðgerðum hennar og hún sé með þessu að stuðla að því að fólk flytji af landsbyggðinni. Það er bara rangur málflutningur.

Við hv. þm. Birki Jón Jónsson vil ég segja að hv. þingmaður ætti að skammast sín fyrir að (Forseti hringir.) eyðileggja félagslega íbúðakerfið með lagabreytingu fyrir nokkrum árum (Forseti hringir.) með þeim afleiðingum að það er neyðarástand hjá nærri 3.000 manns, líka á landsbyggðinni.